Ný FÍB verðkönnun á rafgeymum

Nú er vetur að ganga í garð og margur bíleigandinn hefur efalaust þegar komið að bílnum sínum straumlausum eftir frostkalda nótt eða á eftir að gera það. Haustið er nefnilega sá árstími sem best leiðir í ljós veikleika rafgeymisins í bílnum og hvort tími sé kominn til að endurnýja hann. En hvað kostar nýr rafgeymir í algengustu fólksbílana?
FÍB hefur nú kannað verð á rafgeymum. Spurt var um verð á geymi í venjulegan meðalstóran fimm manna fjölskyldubíl af Ford Focus gerð sem segja má að sé dæmigerður fjölskyldubíll. Algengasta afkastageta geyma í slíkum bílum er 60 Amperstundir. Lang flestir geymarnir í könnuninni eru einmitt 60 Amperstundir en þrír eru aðeins afkastameiri eða 65 Amperstundir.

Verðbilið sem geymarnir í þessari verðkönnun FÍB spannar er frá kr. 19.900 kr. upp í 28.923 kr. Sá ódýrasti er Exide rafgeymirinn hjá Bauhaus á 19.900 kr. Sá er 62 Amperstundir.

Nokkrar breytingar bæði til hækkunar og lækkunar hafa orðið frá síðustu rafgeymaverðkönnun FÍB sem gerð var 14. mars 2013. Mesta lækkun frá könnuninni 2013 er á Yuasa rafgeymi hjá Stillingu - 9 prósent, Toyota rafgeymi hjá Toyota – 8% og VW rafgeymi hjá Heklu – 6%. Mest er hækkunin á Exide geymi hjá Bauhaus – 33% og á Berga rafgeymi hjá Rafgeymasölunni – 11%.
Eftir að könnunin birtist hér á vef FÍB í gær komu fram réttmætar athugasemdir um tvo rafgeyma í verðsamanburðinum. Athugasemdirnar lutu að því að þessir tveir umræddu geymar væru með afkastagetu undir viðmiðinu sem er 60 Amperstundir - annar var 54 Amperstundir en hinn 55. Þessir geymar væru því tæplega samanburðarhæfir við 60 Amperstunda geyma. Ákveðið var því að taka þessa tvo geyma (þá ódýrustu í könnuninni) út.
Þessir tveir geymar sem um ræðir eru 54 Amperstunda Exide rafgeymir sem kostar 19.740 og fæst hjá Ásco. Hinn er 55 Amperstunda AC Delco sem kostar 19.400 hjá Kvikkfix.

 

http://www.fib.is/myndir/Rafgeymarfinalloka.jpg