Ný hraðferja yfir Kattegat

Eftir um eins mánaðar seinkun hefjast stórauknar ferjusiglingar yfir sundið Kattegat. Um er að ræða tvíbyrtar, hraðskreiðar bílaferjur, sem sigla milli Kalundborg á Norðvestur-Sjálandi og Árósa á Jótlandi. Jómfrúarferðin verður farin föstudaginn 29. júní nk. en á þeim degi hefjast skólafrí í Danmörku. Ferjusiglingar yfir Kattegat urðu mun strjálli fyrst eftir að Stórabeltisbrúin var opnuð umferð en virðast vera að aukast aftur.

Stórabeltisbrúin hefur reynst mikil samgöngubót en með henni skapaðist vegarsamband milli suðurhluta Jótlands, og Fjóns og Sjálands. Hún gagnast hins vegar ekki jafn vel sem vegtenging milli Kaupmannahafnar og Árósa, því að frá Kaupmannahöfn þarf að aka langa leið suðureftir Sjálandi, yfir Litlabeltisbrúna og til vesturs eftir Fjóni, yfir Stórabeltisbrúna og svo til norðurs eftir Jótlandi til Árósa. Frá Kaupmannahöfn til Kalundborgar er hins vegar ekki sérlega langur akstur og siglingartíminn  einungis klukkustund og 45 mínútur.  Stórabeltisbrúin er þannig talsvert úr leið sem vegtenging milli höfuðborgarinnar og Árósa, stærstu borgarinnar á Jótlandi.

Mjög svipað kostar fyrir bílinn með nýju hraðferjunni eins og að aka honum yfir Stórabeltisbrúna (Brúartollur rúmlega 5 þúsund ísl kr. – fargjald 5.450 ísl. kr. aðra leið). Því til viðbótar þá sparar ferjan langan akstur og ferðatíma þannig að fyrir íbúa Kaupmannahafnar og aðra íbúa Norður-Sjálands er talsverður sparnaður fólginn í því að taka ferjuna. Þeir Íslendingar sem verða á ferð á eigin bíl á þessum slóðum í sumar og koma með ferjunni Norrönu ættu því að gefa hraðferjunum gaum því að þær spara bæði tíma og eldsneyti milli ferjulægisins í Hirtshals og Kaupmannahafnar.

Nýja hraðferjan milli Kalundborgar og Árósa er reyndar ekki eini hraðferjukosturinn yfir Kattegat, því að hraðferja siglir einnig frá Sjálandsodda til bæði Árósa og til Ebeltoft, ekki langt frá Árósum. Verðið er nánast hið sama hjá báðum fyrirtækjum.