Ný kynslóð metanbíla

http://www.fib.is/myndir/Knutuur%D6gmundur.jpg
Knútur G. Hauksson og Ögmundur Einarsson.

Ný og endurbætt kynslóð metanbíla frá Volkswagen, EcoFuel, er komin á markað hér á landi og afhenti Knútur G. Hauksson, forstjóri HEKLU, fulltrúum Sorpu sex slíka bíla við athöfn í höfuðstöðvum HEKLU í fyrr í dag, fimmtudag. Með tilkomu nýju bílanna verða metanbílar á götum borgarinnar orðnir um 60 talsins en sex ár eru frá því að fyrstu bílarnir komu á markað hérlendis. HEKLA hefur flutt inn ríflega helming þessara bíla, eða alls 35 metanbíla.
http://www.fib.is/myndir/Knut%D6gmStor.jpg
Nýju Sorpu-bílarnir eru af gerðinni VW Caddy EcoFuel og VW Touran Trendline Eco Fuel. Bílarnir eru með hefðbundnum bensínmótorum en við mótorana er búnaður sem gerir þeim mögulegt að ganga hvort heldur sem er fyrir metani eða bensíni ef metanið klárast. Í samanburði við eldri metanbílana munar mest um langdrægni nýju bílanna. Kemst Caddyinn um 430 km á metanfyllingunni og Touran bíllinn um 310 km en meðaldrægni gömlu bílanna er einungis um 130 km á hverri fyllingu.

Nýju bílarnir standa fyllilega jafnfætis samskonar bensínbílum og er enginn finnanlegur munur á afli eða aksturseiginleikum þeirra hvort heldur ekið er á bensíni eða metani. Þessir nýju bílar eru framleiddir hjá Volkswagen að öllu leyti sem metanbílar frá upphafi, en ekki breytt eftirá. Metanið er aðaleldsneytið en lítill bensingeymir er í þeim fyrir gangsetningu og akstur ef metanið klárast. Tölvubúnaður bílsins skiptir sjálfvirkt á milli eldsneytistegundanna án þess að þess verði hið minnsta vart í akstri. FÍB blaðið hefur einmitt reynsluekið VW Touran Trendline Eco Fuel og getur staðfest að enginn munur er finnanlegur í akstri á Eco Fuel bíl og venjulegum bensínknúnum bíl sömu gerðar.

Sömu öryggiskröfur gilda hér á landi um metanbíla og aðra bíla en engrar sérstakrar varúðar þarf að gæta í daglegri umgengni við þá. Erlendar rannsóknir sýna einnig að þeir eru öruggari en bæði bensín- og dísilbílar. Eini gallinn við þá, ef hægt er að tala um galla í þessu sambandi, er sá að aðeins ein almenn metan-áfyllingarstöð fyrirfinnst á landinu - við Bíldshöfða í Reykjavík

Eins og nú háttar með aðgengi að metani eru metanbílar góður valkostur fyrir þá sem aðallega nota bíla á höfuðborgarsvæðinu en varla aðra. Sé meiningin að fara í langferð, t.d. hringinn umhverfis landið, þarf að taka með sér bensínbrúsa því að bensíngeymir nýju metanbílanna tekur einungis rúmlega tug lítra. En ef notkunin er að langmestu leyti bundin við höfuðborgarsvæðið eru metanbílar mjög hagkvæmur kostur.

http://www.fib.is/myndir/Metan1.jpgTil að ýta undir notkun metanbíla hér á landi fellir ríkið niður 240 þúsund krónur af vörugjaldi metanbíla. Metan er einnig umtalsvert ódýrara eldsneyti en bensín og olía. Þannig kostar a.m.k. um 50 krónum minna að aka á metanbíl á hverja selda eldsneytiseiningu, samanborið við bensínbíl. Hver rúmmetri af metani, sem samsvarar 1,12 lítum af bensíni, er seldur á 88 krónur og árlegur sparnaður, miðað við 20.000 km akstur, getur numið hátt í 100.000 krónum samkvæmt útreikningum Metan hf. framleiðanda eldsneytisins.

Því fylgir einnig umtalsverður gjaldeyrissparnaður að nota metan frekar en bensín og olíu. Metan er innlendur eldsneytisgjafi, framleiddur úr hauggasi sem verður til úr lífrænu sorpi á urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi. Vel mætti hugsa sér að hægt yrði að aka stórum hluta íslenska bílaflotans á metani, ef öllum málum sem varða landbúnað (haughús) og lífrænt sorp og klóak yrði skipað í ákveðinn farveg sem miðaði að því að hámarka mögulega framleiðslu á metani á landsvísu. Með því myndi draga mjög úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda bæði af því að miklu minna slyppi út í andrúmsloftið af óbrunnu metani, auk þess sem útblástursmengun frá bílum yrði miklu minni. Spyrja má hvort þetta sé ekki í það minnsta jafn skynsamleg eða skynsamlegri og nærtækari framtíðarsýn en notkun vetnis á bílaflotann?

Umhverfisþátturinn af því að nota metan á bíla er ekki síður mikilvægur þó erfiðara sé að meta ávinninginn í krónum og aurum. Samanborið við bensínvél er yfir 90% minna af koldíoxíði (CO2) í útblæstri metanbíla, 74% minna af kolmónoxíði (CO) og 80% minna af köfnunarefnisoxíði (NOx). Geta má þess einnig að metan er talin vera nífalt öflugri gróðurhúsalofttegund en CO2 og þessvegna eru í gildi alþjóðasamningar um að brenna metani til að draga sem mest úr gróðurhúsaáhrifum þess. Með því að nýta metanið sem eldsneyti á bíla og vélar er því verið að slá tvær flugur í einu höggi - brenna gasið til gagns og um leið að draga úr notkun mun meira mengandi bruna jarðefnaeldsneytis á bílana.

Áætlað er að metanið sem fæst úr hauggasinu í Álfsnesi dugi sem eldsneyti á 2.500 - 3.500 fólksbíla þegar fullum afköstum verður náð árið 2012. Aðeins ein áfyllingarstöð er fyrir metanbíla eins og er, á Bíldshöfða, en stefnt er að fjölga þeim eftir því sem metanbílunum fjölgar.