Ný kynslóð Toyota Prius

Fjórðu kynslóð tvíorkubílsins Toyota Prius hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu víða. Hvernig mun hann líta út og hvaða endurbætur hafa verið gerðar?

Allt mun það koma í ljós á hinum fyrsta opinbera kynningardegi sem verður 8. september eftir rétta viku. En nú hafa lekið út allgóðar myndir af nýja bílnum sem einhver, sennilega starfsmaður á flugvelli í Singapore, hefur tekið af Prius bílum sem búið er að reyra niður um borð í flutningaflugvél. Myndirnar birtust fyrst á Facebooksíðu áhugamanna um Toyota Prius í Malaysíu.

http://fib.is/myndir/NyrPrius1.jpg

Þetta eru tvær myndir sem myndatökumaðurinn hefur náð. Önnur sýnir framan á tvo bíla en hin sýnir afturhluta eins.  Bíllinn til hægri á fyrrnefndu myndinni er tengiltvinnbíllinn Prius Plug-in Hybrid. Það má marka af ljóskerjunum á endum framstuðarans. Engin slík ljós eru á bílnum til vinstri og hann er því líklega venjulegur Prius. Prius tengiltvinnbíllinn nýi er sagður vera verulega langdrægari en sá eldri á rafmagninu einu saman. Drægið verður  um 50 km miðað við 25 km.

Nýi Príusinn er byggður á svonefndum TGNA (Toyota New Global Architecture) undirvagni sem er allt í senn léttari, stífari og með lægri þyngdarpunkt en sá sem hingað til hefur verið grundvöllur Prius bílanna. Engar róttækar breytingar hafa verið gerðar á knýbúnaðinum heldur einungis endurbætur sem sagðar eru leiða til 10 prósent minni eldsneytiseyðslu. Samanlagt afl bensín- og rafmótors er um 150 hö.