Ný lög sem vafalítið hækka bensínverð

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á efnalögum nr. 61/2013.  Frumvarpið er samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og enda þótt það snerti almenning og fyrirtæki umtalsvert – ekki síst olíufélögin sem flytja inn eldsneyti og efni og efnablöndur til að blanda saman við eldsneyti, þykir höfundum frumvarpsins ekki ástæða til að leita eftir áliti olíufélaga né neytenda sem eiga augljóra hagsmuna að gæta. Ekki á nefnilega að setja frumvarpið í almennt umsagnarferli. Um það segir m.a. í  athugasemdum:

 „Frumvarpið snertir fyrst og fremst Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun. Þá snertir frumvarpið almenning og fyrirtæki í landinu, svo sem fyrirtæki sem markaðssetja efni, efnablöndur, hluti sem innihalda efni og eldsneyti. Eins og áður segir var frumvarpið samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í samráði við Umhverfisstofnun og Mannvirkjastofnun. Frumvarpið var ekki sett í almennt umsagnarferli og ekki sent til umsagnar annarra aðila en Umhverfisstofnunar og Mannvirkjastofnunar (leturbr. blm.). Ekki var talin sérstök þörf á að senda frumvarpið til umsagnar hjá tilteknum aðilum einkum þar sem samráð hefur átt sér stað á fyrri stigum vegna undirbúnings á innleiðingu á þeim EES-gerðum sem frumvarpið snertir."

Þegar rýnt er í frumvarpið sést að tilgangur þess er ekki síst sá að lögleiða ýmsar Evróputilskipanir sem lúta að margskonar mengunarvörnum sem er eðlilegt. Eitt slíkra atriða er að hamla gegn því að bensíngufa berist út í andrúmsloftið þegar fyllt er á bíla og á birgðageyma bensínstöðvanna. Koma á fyrir nokkurskonar gufugleypum eða eimsvölum sem grípa bensíngufuna, þétta hana og skila í geymana sem bensíni. Tilgangurinn er að draga úr loftmengun og bæta loftgæði með því að draga úr losun bensíngufu út í andrúmsloftið.

Bensín er blanda fjöldamargra efna og sú blanda hefur smátt og smátt breyst í áranna rás í samræmi við nýjar mengunarvarnakröfur og nýjar kröfur um visst hlutfall endurnýjanlegra lífrænna efna. Þannig hafa mengunarefni eins og t.d. blý og brennisteinn þurft að víkja en önnur efni komið í staðinn t.d. etanól og metanól eða tréspíri.  Ýmis þessi lífrænu efni, eins og t.d. tréspíri auka rokgirni bensínsins.

Því er í umræddu lagafrumvarpi gerð krafa um gufugleypibúnað á bensínstöðvum sem á að koma í veg fyrir að aukin losun á rokgjörnum lífrænum efnum frá íblönduðu eldsneyti hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks og umhverfi. Gufugleypana skal setja upp á nýjar bensínstöðvar og bensínstöðvar sem    „undirgangast meiri háttar endurnýjun þar sem árleg bensínsala er meiri en 500 þúsund lítrar, eða í þeim tilvikum þegar bensínstöð er staðsett undir íbúðarhúsnæði eða vinnusvæði en í slíkum tilvikum er viðmiðið meira en 100 þúsund lítrar á ári. Þá skal setja upp gufugleypa á allar bensínstöðvar þar sem árleg bensínsala nemur meira en 3 milljónum lítrum á ári. Í síðastnefnda tilvikinu skal búnaðurinn vera settur upp fyrir 31. desember 2018."

Þar sem þessi búnaður er mjög dýr mun hann hafa fyrirsjáanleg áhrif á bensínverð. Hann er vissulega þegar til staðar á mörgum af fjölsóttustu bensínstöðvum landsins en er ekki á fjölmörgum minna sóttum stöðvum út um dreifðar byggðir landsins. Samkvæmt heimildum FÍB-frétta innan olíufélaganna mun  frumvarpið, verði það að lögum, líklega leiða til þess að mörgum bensínstöðvum á landsbyggðinni verði lokað þar sem ekki svari kostnaði að setja hinn dýra búnað upp á þeim. Í því ljósi er það sérkennilegt að ekki eigi að leita álits og samráðs við neytendur og olíufélög um frumvarp þetta

Svo virðist stundum sem opin stjórnsýsla eigi stöðugt meira undir högg að sækja og það teljist sjálfsagt að láta semja lagafrumvörp og fá jafnvel hagsmunaaðila til að snara þeim upp, eins og þegar til stóð að setja lög um íblöndun tréspíra í bensín. Lagafrumvörpum er fleytt í gegn um alþingi sem afgreiðir þau sem lög í næturflaustri rétt fyrir þinghlé eða þinglok. Síðan er almenningi stillt upp frammi fyrir orðnum hlut. Um þetta höfum við nýlegt dæmi sem eru 1. apríl-lögin sem heimila að hleypa  óskóluðum börnum út í almenna umferð á óskráðum og ótryggðum vélhjólum en um þau er fjallað í nýjasta tölublaði FÍB blaðsins sem nú er í prentun.