Ný ríkisstjórn og eldsneytisskattar

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga 28. október 2017 lagði FÍB blaðið spurningar um samgöngumál og skatta á bíla og umferð fyrir þá stjórnmálaflokka sem buðu fram í öllum kjördæmum landsins.

Þessa dagana standa yfir stjórnarmyndunarviðræður Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það er því ekki úr vegi að rifja upp svör umræddra þriggja flokka við tveimur ákveðnum spurningum um auknar álögur á bílaeldsneyti sem birtust í 2. tbl. FÍB blaðsins 2017.

Fyrri spurningin:  

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir að leggja auknar álögur á bensín og dísilolíu með hækkun á vörugjaldi af bensíni, olíugjaldi og kolefnisgjaldi. Næðu þessar hugmyndir fram að ganga hefðu þær í för með sér hækkun á hverjum dísilolíulítra um 21,90 krónur og hækkun um 8,60 krónur af hverjum bensínlítra til neytenda. Tekjur ríkissjóðs af bílaeldsneyti myndu hækka um ríflega 20% samanborið við fjárlög 2017. Eldsneytiskostnaður er veigamikill þáttur í framfærslu heimilanna og hækkun skatta á eldsneyti eykur verðbólgu með tilheyrandi hækkun á verðtryggðum skuldum og þyngri afborgunum. Vísitala neysluverðs gæti hækkað um 0,3% til 0,4% í upphafi nýs árs ef tillögur frumvarpsins um hækkun skatta á eldsneyti næðu fram að ganga.  Hver er afstaða flokksins/framboðsins til þessara tillagna? 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð: 
Svar: Umhverfissjónarmið þarf að hafa að leiðarljósi við allar ákvarðanir í samgöngumálum þar sem mikil tækifæri eru í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda í þeim málaflokki. Orkuskipti í samgöngum eru eitt af mikilvægum verkefnum næstu ára og skoða þarf allar leiðir til að koma þeim á þannig að Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. Vinna þarf að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og hægt er. Grænir skattar eru eitt af verkfærunum til þess og þekkjast í öllum nágrannalöndum okkar. 

Sjálfstæðisflokkurinn: 

Svar: Ráðherrar og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins var með fyrirvara gagnvart tillögum fjármálaráðherra um auknar álögur á bensín og dísilolíu í fjárlagafrumvarpinu. Einnig gerðu einstaka þingmenn flokksins opinberlega fyrirvara við stuðning sinn við þessar tillögur.  Alþekkt er að tillögur í fjárlagafrumvörpum nái ekki fram að ganga vegna andstöðu einstaka stjórnarliða. Vísast er að svo hefði farið í þessum efnum. Þar má vitna til ræðu fjármálaráðherra á Alþingi sem sagði að breytingar myndu verða á fjárlagafrumvarpinu í meðförum þingsins. 

Framsóknarflokkurinn: 

Svar: Hækkun eldsneytis mun draga úr kaupmætti, auka þrýsting verulega í kjaraviðræðum sem framundan eru og síðast en ekki síst, hafa áhrif á vísitölu sem mun hækka verðtryggð húsnæðislán og þar með ýta verðbólgunni af stað. Þar til viðbótar má nefna að þetta er viðbótarskattur, landsbyggðarskattur, á þá sem þurfa búsetu sinnar vegna að aka lengra og meira en meðalakstur. 

Síðari spurningin: 

Fram hafa komið vísbendingar um að eldsneytishækkanirnar komi verst niður á fjölskyldum sem hafa minni tekjur og íbúum á landsbyggðinni sem oft þurfa að sækja nauðsynjar, þjónustu og félagsstarf um langan veg.  Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til þessa? 

Vinstri hreyfingin- grænt framboð: 
Svar: Það er almenn stefna Vinstri grænna að hlífa lág- og millitekjuhópum í skattkerfinu. Þá leggjum við ríka áherslu á að gripið verði til mótvægisaðgerða vegna olíugjalda gagnvart landsbyggðinni, þar sem bíllinn er oft og tíðum eini valkosturinn. Það þarf að efla almenningssamgöngur þannig að þær verði raunverulegur valkostur við einkabílinn og byggja upp innviði fyrir rafbílavæðingu samhliða hækkun olíugjalda þannig að græn markmið þessara skattahækkana náist. Þannig myndum við vilja sjá samhliða þessu skýrari skattaívilnanir til umhverfisvænni samgöngumáta og hraðari innviðauppbyggingu þannig að orkuskipti í samgöngum gangi hraðar fyrir sig. 

Sjálfstæðisflokkurinn: 

Svar: Eins og að framan segir gerði Sjálfstæðisflokkurinn fyrirvara við tillögu fjármálaráðherra í fjárlagafrumvarpinu um hækkun eldsneytisgjalda og má vera ljóst af framansögðu að þær hefðu ekki náð fram að ganga. 

Framsóknarflokkurinn: 

Svar: Framsóknarflokkurinn telur ekki rétt að hækka álögur á alla landsmenn þegar möguleikar til notkunar á rafbílum eru ekki enn til staðar um land allt.

Meirihluti flokka var á móti auknum álögum fyrir kosningar

Af framansögðu er ljóst að aðeins Vinstri grænir eru áfram um mögulegar skattahækkanir á bílaeldsneyti en með fyrirvörum.  Fróðlegt verður að fylgjast með því í framvindu viðræðna þessara flokka hvort afstaða Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar muni verða hluti af nýjum stjórnarsáttmála eða hvort ástæða sé til að óttast það sem lagt var til í fjárlagafumvarpi fráfarandi ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. 

Þar var lagt til að stórauka eldsneytisskatta en á sama tíma var ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarfjármunum úr ríkissjóði til uppbyggingar og viðhalds vega. Næðu þær hækkanir fram að ganga myndi  útsöluverð á bensínlítra hækka um 8,70 krónur eða úr 206,80 krónum í 215,50 krónur og verð á dísillítra hækka um 22 krónur og fara úr núverandi verði 198,90 krónum í 220.90 krónur.  Þarna er miðað við sjálfsafgreiðsluverð í dag á bensínstöðvum N1 og Olís.  

FÍB minnir á að eldsneytiskostnaður er veigamikill þáttur í framfærslu heimilanna og hækkun skatta á eldsneyti eykur verðbólgu með tilheyrandi hækkun á verðtryggðum skuldum heimilanna og þyngri afborgunum.  Það er ljóst að  eldsneytishækkanirnar koma verst niður á þeim fjölskyldum sem hafa minni tekjur og þeim sem búa á jaðarsvæðum á landsbyggðinni og þurfa að sækja alla þjónustu um langan veg.

Hugmyndir um aukna skatta á eldsneyti, vegatolla og vegamál almennt voru mjög ofarlega á baugi í aðdraganda síðustu kosninga og það verður fróðlegt að sjá hvaða línur verða lagðar hjá nýrri ríkisstjórn varðandi þessi mál.

FÍB eru frjáls hagsmunasamtök vegfarenda sem um 17 þúsund fjölskyldur eiga aðild að.  FÍB býður fram krafta sína og vonast eftir góðu samstarfi við kjörna fulltrúa og stjórnvöld varðandi stefnumótun til framtíðar í samgöngu-, neytenda- og öryggismálum. 

 

Bensín

Skattar nóvember 2017

Hlutfall %

Skattur m/v fjárlaga-frumvarp 2018

Hlutfall %

Mánuður og ár

Nóvember

 

2018

 

Innkaupsverð krónur á lítra

50,00

24,18%

50,00

23,20%

Vörugjald

26,80

12,96%

27,40

12,71%

Fl.jöfn gjald

0,45

0,22%

0,45

0,21%

Kolefnisgjald

5,50

2,66%

11,00

5,10%

Bensingjald

43,25

20,91%

44,20

20,51%

Vsk í sjafgr, 24%

40,02

19,35%

41,70

19,35%

Álagning, flutningur ofl.

40,78

19,72%

40,75

18,91%

Álagning, flutn. m/vsk.

50,57

24,45%

50,53

23,45%

Útsöluverð - sjálfsafgreiðsla

206,80

100,00%

215,50

100,00%

         

Skattar kr.

116,02

56,10%

124,75

57,89%

 

 

Dísilolía

Skattar nóvember 2017

Hlutfall %

Skattur m/v fjárlaga-frumvarp 2018

Hlutfall %

Mánuður og ár

Nóvember

 

2018

 

Innkaupsverð krónur á lítra

50,00

25,14%

50,00

22,63%

Olíugjald

60,10

30,22%

71,60

32,41%

Fl.jöfn gjald

0,73

0,37%

0,73

0,33%

Kolefnisgjald

6,30

3,17%

12,60

5,70%

Vsk. 24%

38,49

19,35%

42,74

19,35%

Álagning, flutningur ofl.

43,28

21,76%

43,23

19,57%

Álagning, flutningur m/vsk

53,67

26,98%

53,60

24,26%

Útsöluverð á dísilolíu

198,90

100,00%

220,90

100,00%

 

       

Skattar

105,62

53,10%

127,67

57,80%