Ný samgönguáætlun er í smíðum

http://www.fib.is/myndir/Sturlabo2.jpg
Sturla Böðvarvsson samgönguráðherra.

Ný samgönguáætlun fyrir tímabilið 2007-2018 er nú í smíðum og voru þær hugmyndir sem unnið er útfrá kynntar á samgönguþingi á Selfossi í gær. Kynnt var tillaga samgönguráðs tll þingsályktunar um nýju samgönguáætlunina en hún skal miðast við allar samgöngur á láði, lofti og legi.

Í tillögu samgönguráðs segir að í nýrri samgönguáætlun skuli stefnt að greiðari samgöngum og nægum hreyfanleika í samgöngukerfinu sem taki til bæði fólks og vöru og að skilyrði verði sköpuð fyrir sem flesta landsmenn að komast til og frá þjónustukjarna á ekki meira en einni klukkustund og til og frá höfuðborgarsvæðinu á innan við þriggja klst. ferðatíma.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sagði í ræðu sinni á þinginu að hann legði höfuðáherslu á eflt og bætt öryggi í umferð hér á landi. Stefnt væri að því að fækka dauðaslysum í umferð þannig að fjöldi dauðaslysa pr. 100 þúsund íbúa verði ekki meiri en lægst gerist hjá öðrum þjóðum. Á sama hátt verði stefnt að því að fjöldi alvarlega slasaðra í umferð lækki að jafnaði um 5% á ári til ársins 2016 miðað við meðaltal áranna 2001-2005.

Í tillögu samgönguráðs segir að gera skuli vegi og götur öruggari, m.a. með bættri öryggishönnun, aðskilnaði bílaumferðar og óvarinna vegfarenda þar sem umferð er mest og með því að fækka hættulegum stöðum í vegakerfinu. Halda skuli áfram kerfisbundnum aðskilnaði akstursstefna á umferðarþyngstu vegunum og gerð verði úttekt á vegakerfinu í þeim tilgangi að meta leyfilegan hámarkshraða miðað við gerð vegar.

Sú úttekt er raunar þegar hafin eins og fram hefur komið hér á fréttavef FÍB, í FÍB blaðinu og öðrum fjölmiðlum, Úttektin er unnin af FÍB undir merkjum EuroRAP og er starfsemin styrkt af samgönguráðuneytinu og undirstofnunum þess og nokkrum fyrirtækjum.
http://www.fib.is/myndir/StyrkjaEuroRAP.jpg

Þessi fyrirtæki og stofnanir styrkja EuroRAP á Íslandi.