Ný samgönguáætlun fyrir 2015-2018

Samgönguráð innanríkisráðuneytisins hefur gengið frá þingsályktunartillögu um nýja samgönguáætlun fyrir árin 2015-2018 sem til stendur að leggja fyrir alþingi til afgreiðslu. Í greinargerð ráðsins með tillögunni er m.a. fjallað um viðhald á bundnu slitlagi á vegum landsins sem hefur verið herfilega vanrækt undanfarin ár með alkunnum afleiðingum.

Viðhald vegakerfisins frá efnahagshruninu 2008 hefur verið mjög vanrækt og er nú órafjarri því því að halda í við niðurbrot vega af völdum umferðar og veðrunar. Fjárveitingar til viðhalds á bundnu slitlagi eru það litlar að þær duga um 6-7 prósent af flatarmáli bundins slitlags í vegakerfinu á ári eða til endurnýjunar á 12-14 ára fresti. Afleiðingin er sú að ástand slitlags hefur farið versnandi undanfarin ár.  

En sérstaka athygli vekur þó að í greinargerðinni er algerlega tekið undir þá gagnrýni sem FÍB hefur ítrekað sett fram á séríslenskt verklag, efnisnotkun og vinnubrögð við lagningu og endurnýjun slitlags á vegum. Þeirri gagnrýni hefur hingað til ýmist verið lítt eða ekki svarað eða þá vísað á bug sem dellurövli frá aðilum sem ekkert vit hafi á málum. En í greinargerð samgönguráðsins nú um þetta segir eftirfarandi:

„Til Þess að auka endingu er nauðsynlegt að vinna að tveimur markmiðum. Í fyrsta lagi að endurbæta klæðningarslitlag með því að nota betra og þar af leiðandi dýrara steinefni og vanda betur vinnubrögð við lögn slitlags. Í öðru lagi að leggja malbik í stað klæðningar á vegi sem eru með yfir þrjú þúsund bíla umferð. Malbik er 6-7 sinnum dýrara en klæðning sem yfirlögn, en á móti kemur lengri ending og auk þess eykst burðarþol veganna þar sem malbikið hefur meiri styrk en klæðningin.“