Ný sjálfskipting fyrir Ford og Volvo væntanleg

The image “http://www.fib.is/myndir/DualClutch.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Sjö gíra PowerShift kassi fyrir afturhjóladrifna aflmikla bíla, t.d. Mustang.

Að undanförnu hefur tæknifólk frá Ford og gírkassaframleiðandanum Getrag unnið að þróun nýs gírkassa í fólksbíla Ford-samsteypunnar. Gírkassinn er svipaður og hinn vel heppnaði DSG gírkassi Volkswagen - nokkurskonar blanda venjulegs handskipts gírkassa og sjálfskiptingar svo gripið sé til mjög einfaldrar skýringar.

Vinnuheiti þessa gírkassa hjá Ford er PowerShift og segir Auto Motor & Sport í Svíþjóð að hann muni fyrst koma fram í Volvobílum og síðan í Ford- og Mazdabílum. Hjá Getrag sem einnig framleiðir gírkassana fyrir Mercedes Benz og fleiri, kallast kassinn Dual Clutch Transmission eða tveggja tengsla gírkassar.

http://www.fib.is/myndir/DualClutch-6g.jpgEinkenni  gírkassa eins og DSG og hins nýja Ford/Getrag gírkassa eru þau að hægt er að aka bílnum bæði með því að velja hvern gír handvirkt en einnig hægt að hafa hann í sjálfskiptiham. Sem sjálfskipting ganga gírskiptingar svo mjúklega fyrir sig svo að þær finnast vart. Þá er núningsmótstaða í þessum kössum minni en í hefðbundnum sjálfskiptingum  þannig að eldsneyti sparast.  

Getrag  þróar og framleiðir gírkassa fyrir fjölda bílaframleiðenda og hefur þróað þessa nýju gírkassa fyrir bæði afturhjóladrifna, framhjóladrifna og fjórhjóladrifna bíla. Flestir eru þeir sex gíra en ein gerðin er sjö gíra og sérstaklega gerð fyrir aflmikla afturhjóladrifna bíla. Vinnsluþol hans er 750 Newtonmetrar. Gírkassarnir fyrir framhjóladrifna og fjórhjóladrifna bíla eru sex gíra og vinnsluþol þeirra er  allt að 470 Nm sem veitir Volvo svigrúm til að auka afl bíla sinna frá því sem nú er algengast.