Ný stórinnköllun hjá Toyota

Fréttastofa Reuters greinir frá því að nú í morgun hafi Toyota Motor Corp. tilkynnt  innköllun á yfir 1,7 milljón bíla um heim allan. Þetta þýðir að sú röð innkallana sem hófst síðla árs 2009 út af bensínfetli sem sagður var eiga til að festast, auk meintra hemlagalla o.fl. mun ná nýjum hæðum og slá upp í nærri 16 milljón bíla þegar öll kurl koma til grafar. Hlutabréf í Toyota féllu í verði um nærri 2 prósent í kjölfar þessarar tilkynningar.

Meginástæða innköllunarinnar nú er meintur galli í eldsneytisdælu og röri sem við hana tengist. Búnaðurinn er í 1,34 milljón bílum. Meðal þeirra eru fjölnotabíllinn Noah, sem myndin er af, og fleiri gerðir sem seldar eru á heimamarkaðinum, Japan. Þá er búnaðurinn sagður í 141 þúsund Avensis bílum utan Japans. 

Innköllunin nú er sú stærsta einstaka hjá Toyota í sex ár og önnur stærsta sem gerð er vegna eins afmarkaðs galla að sögn talskonu Toyota; Shiori Hashimoto.