Ný þvottastöð dregur úr svifryksmengun í borginni

Ryk og óhreinindi á götum borgarinnar gera vart við sig öðru hvoru með tilheyrandi mengun á höfuðborgarsvæðinu. Þetta ástand hefur verið vegfarendum mikill vansi og þá sérstaklega astma- og lungnasjúklingum sem í mörgum tilfellum hafa þurft að halda sig innan dyra þegar versta ástandið gengur yfir. Forsvarsmenn um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut, NLSH og Íslenskir Aðalverktakar hf. leggja áherslu á vandaðar umhverfisvarnir í kringum byggingarsvæði nýja Landspítalans við Hringbraut. 

Til að koma í veg fyrir að óhreinindi berist út á götur borgarinnar frá jarðvegsframkvæmdum á Landspítalalóðinni hefur verið sett upp öflug hjóla og undirvagna þvottastöð fyrsta sinnar tegundar hérlendis fyrir vörubíla og vinnuvélar. Með notkun á þessari nýju tegund þvottastöðvar er verið að marka tímamót í jarðvinnugeiranum hér á landi en ekki hefur verið sambærileg þvottastöð tekin í notkun um langt skeið.

 Moby Dick þvottastöðin er svissnesk hágæða hjóla og undirvagna þvottastöð sem er framleidd af fyrirtækinu Frutiger sem er með yfir 30 ára reynslu í mengunarvörnum á jarðvinnu- og byggingasvæðum. Þvottastöðin á Landspítalareitnum er af gerðinni KIT Plus 600 MB-50. Hún er sex metrar að lengd með steyptu plani báðum megin við stöðina. Stöðin er sjálfvirk þar sem vörubílar og vinnuvélar keyra framhjá skynjara sem ræsir vatnskerfið í 30 sekúndur. Fjöldi vatnsspísa þrífa ryk og drullu af undirvagni og hjólum sem síðan skolast niður í 60.000 lítra vatnstank. Þar setjast jarðefni á botninum og er þeim síðar dælt úr tanknum.

Þvottastöðin er liður NLSH ohf. og ÍAV í að leggja lóð sín á vogarskálarnar að stuðla að betri heilsu landsmanna en svifryksmengun hefur, samkvæmt Umhverfisstofnun, farið yfir heilsuverndarmörk sjö til tuttugu sinnum á ári undanfarin ár. Ryk og óhreinindi á götum borgarinnar hafa árum saman verið íbúum höfuðborgarsvæðisins til ama. Þvottastöðin mun skila hreinni götum og minna svifryki fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega fólki með undirliggjandi öndunarfæra- og hjartasjúkdóma sem er viðkvæmast fyrir heilsuspillandi áhrifum svifryks. Orðið hefur jákvæð umhverfisvitund fyrirtækja í jarðvinnugeiranum undanfarin ár sem í grunninn snýr að bættri umgengi við landið okkar og heilsu samborgara.

Vörubifreiðar og vinnuvélar á byggingasvæðum vinna í umhverfi þar sem aur, drulla og ryk er óhjákvæmilegur fylgifiskur framkvæmda. Sé ekkert  að gert til að hamla því að óhreinindi berist frá byggingasvæði út á götur er það ógn við heilsu fólks í formi aukins svifryks svo að ekki sé minnst á aukinn kostnað sem hlýst af þrifum á götum og bifreiðum. Jarðvinna á Landspítalalóðinni felst meðal annars í upprifi á núverandi yfirborði gatna, göngustíga, bílastæða og grænna svæða, ásamt allri jarðvinnu fyrir meðferðarkjarna. Um mikið efnismagn er að ræða sem krefst samræmingar og skipulagningar á umferð til og frá verkstað og einnig góðra umhverfisvarna.