Ný tvígengis dísilvél

Sem betur fer er til fólk sem getur hugsað út fyrir kassann, eins og vélaverkfræðingarnir hjá EcoMotors í Bandaríkjunum sem vinna að því að hanna nýja tvígengis-ofurdísilvél sem verður um 150 kíló að þyngd en skilar 325 hestöflum. Vélin er sérstök að því leyti að hún er tveggja strokka, en í hvorum strokki eru tvær bullur sem nálgast hvor aðra úr gagnstæðum áttum. Sjá myndband.

EcoMotors var stofnað 2008 af verkfræðingum sem áður störfuðu hjá Cummins dísilvélaframleiðandanum. Nýja vélin þeirra er tvígengis dísilvél. Hún vinnur þannig að bullurnar nálgast hvor aðra úr gagnstæðum áttum og þjappa saman lofti sem hitnar mjög um leið. Þegar bullurnar eða stimplarnir hafa náð hástöðu kemur eldsneytisgusa inn í brennheitt loftið, það kviknar í eldsneytinu og sprenging verður sem þeytir bullunum hvorri frá annarri (aflslag).

Fjöldaframleiðsla er ekki hafin á þessum nýju mótorum sem sagðir eru verða mjög sparneytnir og sérlega aflmiklir miðað við stærð og þyngd. En þrátt fyrir það hefur Bandaríkjaher þegar samið við EcoMotors um kaup á 150 þúsund mótorum sem nota á til að knýja rafstöðvar.

Til að geta annað þessari eftirspurn hefur EcoMotors komið sér í samstarf við ZhongDing Power í Kína. ZhongDing Power byggir verksmiðju fyrir 200 milljónir dollara en í henni verða mótorarnir framleiddir. Framleiðslan hefst á næsta ári og verða búnir til 150.000 mótorar á ári. Næsta skref verður svo að setja mótorana í bíla og hafa samningar verið undirritaðir við þrjár kínverskar bílaverksmiðjur um mótorakaup. Reiknað er með að fyrstu bílarnir með þessum hugvitssamlega mótor komist í umferð upp úr áramótunum 2015/2016.

Þótt engar eyðslutölur liggi enn fyrir má reikna með að vélarnar verði sparneytnar og líklegast endingargóðar einnig, ekki síst vegna þess að þær verða fremur hæggengar. Hámarkssnúningurinn verður um 3.500 sn./mín. Það er þannig ljóst að ekki verður aflið kreist út úr vélunum með miklum snúningshraða. En það verður þó enginn skortur á því. Það er sagt verða um það bil tvö hestöfl á hvert kíló þyngdar mótorsins. …Og þegar svo er, þá er sannarlega ástæða til að sperra eyrun.

Brunahreyflarnir í bílum nútímans eru sannarlega ekki nýir af nálinni. Í grundvallaratriðum hafa þeir lítið breyst í rúmlega eina öld að öðru leyti en því að á þeim hafa verið gerðar miklar endurbætur til að ná fram betri endingu og betri orkunýtni. Margir þekkja nýjustu dísilvélarnar í fólksbílum sem bæði eru hljóðlátar og aflmiklar en jafnframt sérlega sparneytnar. Og nú gengur bensínvélin í gegn um svipaða þróun og á næstu árum munu koma fram fleiri og fleiri mjög sparneytnar bensínvélar en jafnframt öflugar. Það verður því ekki annað sagt en að enn sé líf með gömlu brunahreyflunum.