Ný umferðarlög auka umferðaröryggi í landinu

Eins og fram hefur komið taka ný umferðarlög gildi um áramótin en þau voru afgreidd á Alþingi í byrjun júní. Góð sátt ríkti um frumvarpið og enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn því. Margar breytingar verða gerðar á núverandi löggjöf, skerpt á ýmsu og annað hert.

Í viðtali við Fréttablaðið í morgun segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félgas íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, að heilt yfir sé hann ánægður með löggjöfina. Hann elur hana auka umferðaröryggi í landinu og hafa forvarnargildi. „Umferðin er ekki einkamál okkar, þetta er hættulegasti vettvangurinn í nútímasamfélagi,“ segir hann.

Nokkrar breytingar eru veigamiklar að mati Runólfs svo sem skilgreining á hringtorgum. „Við teljum líka jákvætt að hækka hjálma­skyldu á reiðhjólum og að skylt verði að hafa ökuljós á allan sólarhringinn. Einnig að skylt verður að nota bílbelti í öllum langferðabifreiðum, innan eða utan þéttbýlis, á vegum þar sem hámarkshraði er meiri en 80 kílómetrar,“ segir hann í viðtalinu við Fréttablaðið.

Spurður um það sem betur hefði mátt fara segir Runólfur að hann hefði viljað sjá tekið á afskriftum hraðasekta erlendra ferðamanna úr myndavélum. Í upprunalega frumvarpinu voru ákvæði um hlutlæga ábyrgð bifreiðaeigenda, sem í þessum tilvikum eru í langflestum tilvikum bílaleigur, en voru þau felld út í meðferð þingsins. Samtök Ferðaþjónustunnar lögðust mjög gegn þessu, sögðu að þetta myndi kosta bílaleigurnar hundruð milljóna króna sem ekki væri hægt að velta út í verðlagið.