Ný umferðarlög fela í sér mörg veigamikil nýmæli og breytingar

Ný umferðarlög sem samþykkt voru á Alþingi í júní fela í sér mörg veigamikil nýmæli og breytingar á fyrri löggjöf. Meginmarkmið laganna er að vernda líf og heilsu vegfarenda með auknu umferðaröryggi þar sem jafnræðis er gætt milli vegfarenda. Lögin er afrakstur margra ára undirbúnings og heildarendurskoðunar á löggjöfinni í víðtæku samráði við almenning og hagsmunaaðila. Nýju lögin nr. 77/2019 taka gildi um næstu áramót eða 1. janúar 2020.

Á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins kemur fram að  næstu vikum og mánuðum verða ýmsar reglugerðir endurskoðaðar til samræmis við nýsamþykkta heildalöggjöf um umferðarmál. Áform um slíkar breytingar verða kynntar í samráðsgátt stjórnvalda.

Helstu nýmæli í umferðarlögum (taka gildi 1. janúar 2020)

 • Ölvunarakstur – Í nýju lögunum telst ökumaður ekki geta stjórnað ökutæki örugglega ef vínandamagn mælist 0,2‰ í blóði hans. Hlutlægu mörkin sem segja til um það hvort ökumaður geti stjórnað ökutæki örugglega eru því lækkuð úr 0,5‰ í 0,2‰. Refsimörk verða þó áfram miðuð við 0,5‰ og verður ökumönnum því ekki gerð refsing nema áfengi í blóði mælist yfir 0,5‰. Í frumvarpinu sem ráðherra lagði fram miðuðu refsimörkin við 0,2‰ en umhverfis- og samgöngunefnd gerði breytingu þar á.
 • Vanhæfismörk vegna lyfja – Ráðherra er veitt heimild til að setja reglugerð þar sem kveðið er á um vanhæfismörk vegna lyfja sem hafa áhrif á aksturshæfni. Þannig verður ráðherra heimilt að setja reglur sem kveða á um það með hlutlægum hætti hvenær ökumenn teljast ekki geta stjórnað ökutæki örugglega vegna neyslu lyfja. 
 • Ávana- og fíkniefni – Nýju umferðarlögin gera ráð fyrir því að horfið verði frá þeirri framkvæmd að ávana- og fíkniefni sem mælast í þvagi geti verið grundvöllur refsingar en samkvæmt nýju lögunum telst ökumaður aðeins vera undir áhrifum slíkra efna ef þau mælast í blóði.
 • Snjalltæki – Í lögunum eru ákvæði er varða snjalltæki og bann við notkun þeirra gert skýrt, jafnt fyrir ökumenn vélknúinna ökutækja sem og fyrir hjólreiðamenn.
 • Sjálfkeyrandi ökutæki – Prófanir á sjálfkeyrandi ökutækjum verða heimilar, að fengnu leyfi Samgöngustofu og að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.
 • Hjálmaskylda – Skylda barna til að nota hlífðarhjálm við hjólreiðar er færð í lög og nær nú til barna yngri en 16 ára í stað barna yngri en 15 ára.
 • Hjólreiðar – Ýmis ný ákvæði eru í umferðarlögunum um hjólreiðar. Kveðið er á um að þegar ekið er fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli skal hliðarbil vera að lágmarki 1,5 metrar. Þá skal hjólreiðamaður almennt halda sig lengst til hægri á hægri akrein. Þó er óhætt að hjóla á miðri akrein á vegi þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 km/klst. Þá er hjólreiðamönnum gert að sýna sérstaka aðgát við vegamót og þar sem akbraut og stígar skerast. Hjólreiðamaður skal gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir. Ökumaður sem ætlar að beygja þvert á hjólarein skal veita umferð hjólreiðamanna á reininni forgang.
 • Hjólastígur – Ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða göngustíg skal að jafnaði notast við hjólastíga. Í slíkum tilvikum er aðeins heimilt að hjóla á gangstétt eða göngustíg á hraða sem er ekki meiri en eðlilegur gönguhraði.
 • Farþegar á reiðhjólum – Fellt er brott almennt bann við því að reiða farþega á reiðhjóli en ráðherra mun í reglugerð setja nánari reglur um flutning farþega á reiðhjólum. Áfram er kveðið á um að aðeins þeim sem hafa náð 15 ára aldri megi reiða börn yngri en 7 ára og þá í þar til gerðum sætum.
 • Göngugötur – Hugtakið göngugata er skilgreint í nýju lögunum og sérstakt ákvæði sett um reglur sem gilda skulu í göngugötum. Þannig er umferð vélknúinna ökutækja í göngugötum almennt óheimil með ákveðnum undanþágum.
 • Rauð ljós – Í fyrsta sinn verður í lögum lagt bann við akstri gegn rauðu ljósi en slíkt bann hefur hingað til aðeins verið í reglugerð.
 • Akstur í hringtorgum – Sett eru sérstök ákvæði um akstur í hringtorgum. Þannig er lögfest að  ökumaður í ytri hring skal veita þeim sem ekur í innri hring forgang út úr torginu. Þá skal ökumaður í hringtorgi, sem skipt er í tvær akreinar, velja hægri akrein (ytri hring), ætli hann að aka út úr hringtorginu á fyrstu gatnamótum. Óheimilt er að skipta um akrein við hring eða á milli ytri og innri hrings í hringtorgi. 
 • Eftirvagnar – Allir eftirvagnar vélknúinna ökutækja eru í lögunum gerðir skráningarskyldir, óháð stærð þeirra.
 • Sorp úr ökutækjum – Í lögunum er lagt bann við því að fleygja sorpi út úr ökutæki eða skilja eftir á vegi sorp eða annað sem óhreinkar veg eða náttúru, jafnvel þótt það hafi ekki í för með sér hættu eða óþægindi fyrir aðra vegfarendur. Í gildandi umferðarlögum er aðeins lagt bann við því að fleygja eða skilja sorp eftir á vegi það sem getur haft í för með sér hættu eða óþægindi fyrir umferðina.
 • Takmörkun umferðar vegna mengunar – Veghaldara verður nú heimilað að takmarka eða banna umferð um stundarsakir á vegi eða svæði þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum eða hætta talin á að svo verði. Til grundvallar banni skal liggja fyrir rökstuðningur, studdur mæliniðurstöðum og mengunarspám. Ráðherra er heimilt að setja reglugerð með nánari ákvæðum um takmarkanir vegna mengunar.
 • Ökukennsla – Fært er í lög að ökukennarar þurfi að stunda nám og standast próf í viðkomandi ökutækjaflokki en kveðið hefur verið á um það í reglugerð hingað til. Gerð er sú krafa að ökukennarar þurfi að fullnægja kröfum um líkamlegt og andlegt hæfi sem gerðar eru til ökumanna sem annast farþegaflutninga í atvinnuskyni. Þá verður heimilt að synja þeim um starfsleyfi sem hefur hlotið dóm fyrir kynferðisbrot.
 • Heilbrigðisskilyrði fyrir ökuréttindum – Í lögunum er ákvæði um að lögregla skuli afturkalla ökuréttindi ökumanns tímabundið í þrjá mánuði ef vafi leikur á að ökumaður uppfylli heilbrigðisskilyrði til að fá útgefið ökuskírteini. Ökumaður skal svo gangast undir mat á aksturshæfni sinni undir umsjón trúnaðarlæknis Samgöngustofu og verða ökuréttindi ekki gild að nýju fyrr en að loknu slíku mati.