Nýi A-Benzinn eftirsóttur

Nýja gerðin af Mercedes A hefur slegið í gegn hjá bílakaupendum því pantanir streyma inn, miklu fleiri en Benz-stjórnendur höfðu búist við og hafa aldrei verið fleiri í nýja bíl í allri sögu Mercedes Benz. Til að geta mætt eftirspurninni hefur þriðju vaktinni á sólarhring verið bætt við í verksmiðjunni í Rastatt, einni þriggja verksmiðja sem byggja nýja A-Benzann. Það þýðir 500 stöðugildi til viðbótar við þau 6.500 sem fyrir eru.

Eftirsóknin eftir þessum nýja bíl er vissulega óvenjuleg nú í miðri djúpri kreppu hins evrópska bílaiðnaðar þegar flestar fréttir fjalla um sölu- og framleiðsludrátt, eymd og volæði, hér og þar og allstaðar. Fregnir um eftirsókn eftir þessum nýja bíl eru því gleðifregnir fyrir bílaáhugafólk, bílaiðnaðinn og auðvitað fyrir Daimler sem hefur fengið yfir 70 þúsund staðfestar pantanir í nýjan A-Benz frá því bíllinn var fyrst kynntur í júní sl.  Í frétt frá Daimler segir að nánast tíundi hver gestur sem litið hefur inn í Mercedes söluumboð í Evrópu frá því í júní hafi lagt inn og staðfest pöntun á nýjum A-Benz.

A- og B-Benz bílarnir eru framleiddir í þremur verksmiðjum. Sú stærsta er í Rastatt í Þýskalandi. Hinar eru ný verksmiðja Mercedes Benz í  Kecskemét í Ungverjalandi. Einnig verður A-Benzinn byggður í verksmiðju Valmet í Finnlandi.