Nýi bíllinn er ekki bilaður

Mjög margir nýir bílar eru nú með start-stopp búnaði sem slekkur sjálfvirkt á vélinni þegar stöðvað er, t.d. á rauðu ljósi.  Í sumum tegundum er búnaðurinn einfaldlega staðalbúnaður og sölumenn þessara bíla orðnir svo vanir honum að þeim finnst ekki taka því að minnast á hann við nýja kaupendur.

Þannig var það með konu sem er félagsmaður í FÍB og hefur keypt nýjan smábíl af þekktri tegund. Start-stopp búnaðurinn er staðalbúnaður í þessum bíl og svo sjálfsagður hefur sölumanni umboðsins þótt hann vera að hann minntist ekkert á hann við konuna þegar hann afhenti henni bílinn fyrr í þessari viku.

En þegar kaupandinn hafði tekið við bílnum ók hún heimleiðis og á umferðarljósum ekki langt frá heimili hennar drap bíllinn á sér. Hún vissi ekki hvað var að gerast! Var nýi bíllinn eitthvað bilaður? Hún sneri kveikilyklinum og bíllinn fór í gang um leið og græna ljósið kviknaði á götuvitanum og hún komst síðasta spölinn heim og sagði sínar farir ekki sléttar. Sonurinn á heimilinu sem er bílfróður í betra lagi, upplýsti móður sína þá um hvernig á þessu stæði og nýbakaður bíleigandinn andaði léttar.

Svipaða sögu sagði okkur félagsmaður sem tók við bílaleigubíl seint að kvöldi á evrópskum flugvelli fyrr í haust. Rökkvað var orðið, það rigndi og skyggni var slæmt. Maðurinn var einn á ferð og ekki vel kunnugur leiðinni sem framundan var. Inni í nærliggjandi borg í talsvert þéttri umferð stansar hann á rauðu ljósi og um leið drepst á bílnum. Manninum krossbrá og reyndi að ræsa vélina á ný, bíllinn fór í gang, en drap fljótlega á sér aftur. Á næstu rauðu ljósum endurtók þetta sig og maðurinn reyndi í hvert sinn að halda bílnum í gangi og koma þannig í veg fyrir að því hann hélt, að hann hreinlega strandaði þarna í miðri borginni í rigningunni og dimmviðrinu.

En á áfangastað komst hann þó og morguninn eftir var það hans fyrsta verk að hringja í bílaleiguna og lýsa þessu sem hann taldi að hlyti vera einhverskonar bilun í bílnum. Þá fékk hann fyrst að vita hjá starfsmanni leigunnar að bíllinn væri með start-stopp búnaði og að svona virkaði hann bara. Bíllinn dræpi á sér þegar hann stöðvaðist en dytti svo í gang um leið og stigið væri á kúplinguna og bensíngjöfin væri snert.

Þessi tvö dæmi staðfesta vel hversu nauðsynlegt það er að sölufólk og starfsfólk bílaleiga veiti fólki sem er að taka við nýjum bíl, upplýsingar um helsta búnað bílsins og hvernig hann virkar.

Eldra dæmi um þetta er þegar læsivarðir ABS hemlar voru sem óðast að koma í nýja bíla. ABS hemlar virka þannig að hjólin stöðvast aldrei í nauðhemlun, heldur eru rétt við það. Með því móti verður hemlunin öflugri (við langflestar akstursaðstæður). En þegar ABS kerfið er að vinna sitt verk finnst það sem grófur titringur í hemlapedalanum og upp í fót ökumanns.

Í slíkum atgangi brá mörgum verulega í brún og ófá eru þau símtölin sem starfsmenn FÍB hafa átt við fólk sem fullyrti að bremsurnar í nýja bílnum þeirra væru illilega bilaðar og umboðið vildi ekkert gera í málinu. Auðvitað var ekkert að bílnum. Öryggisbúnaður hans var einfaldlega að vinna sitt verk en sölufólkinu hafði láðst að útskýra þennan nýja búnað fyrir kaupendunum í upphafi og ekki tekist vel upp í útskýringunum þegar óttaslegið fólkið hafði samband vegna þess að það hélt að eitthvað væri stórlega bilað í bílnum.