Nýi bíllinn vaktar þig - en hver á gögnin?
Nýjustu bílar eru mjög tölvuvæddir og margir þeirra eru líka netttengdir og í stöðugu netsambandi við framleiðendur sína og þjónustuaðila þeirra. Bílarnir safna upplýsingum um ástand sitt, hvernig þeir eru notaðir og hvernig þeim er ekið og hvar og miðla þessum upplýsingum áfram til framleiðandans og/eða þjónustuaðila hans án þess að eigandi, umráðamaður eða notandi bílsins hafi sérstaka vitneskju um það.
Þessi stöðugt vaxandi gagnasöfnun og gagnastraumur eykur jafnt og þétt hættu á innbrotum í tölvukerfi bílanna og inn í þá sjálfa. Innbrot í tölvukerfi bíla auka hættu á inngripi í öryggisbúnað bílanna, sem gæti haft alvarlegar afleiðingar í akstri. Jafnframt aukast líkur á að bílunum sé hreinlega stolið.
FiA – heimssamtök bifreiðaeigendafélaga gangast um þessar mundir fyrir átaki í því að efla almenna þekkingu á bílatölvutækni og vekja athygli bifreiðaeigenda og -notenda á hinum neikvæðum fylgifiskum tölvutækninnar og nettengingar bíla. FiA vill benda á hversu nauðsynlegt er orðið að endurskoða lög sem um þessi mál gilda og færa til nútímahorfs og tryggja friðhelgi fólks og full yfirráð yfir upplýsingum sem varða það sjálft. Átak FiA nefnist MyCarMyData. Þetta eru meginatriði átaksins:
Gagnavernd
Lagasetningin þarf að kveða skýrt á um fullan eignarrétt bíleigandans yfir þeim upplýsingum og gögnum sem safnast upp í tölvukerfi bíls hans. Hann geti síðan veitt upplýst samþykki sitt um það hverjum hann veitir aðgang að þessum gögnum og í hvaða tilgangi þau séu nýtt.
Frjálst val
Neytandinn skal eiga þess kost að velja sjálfur á opnum markaði þann þjónutuaðila sem hann best treystir til þess að þjónusta bíl sinn. Til að það sé mögulegt að frjáls samkeppni ríki í þessu efni verða gögn um ástand bíls að vera aðgengileg fleiri þjónustuaðilum en þeim sem framleiðandi hefur únefnt.
Sanngjörn samkeppni
Tölvugögn bíla skulu vera eign bíleigandans og vera opin og aðgengileg fleiri þjónustuveitendum. Það stuðlar að meira frumkvæði og bættri þjónustu og stuðlar að þróun betri og öruggari tölvu- og hugbúnaðar.
Sjá nánar hér: http://mycarmydata.se/