Nýir Lada Sport á Íslandi

Lada Sport eða Lada Niva eins og þessi rússneski jepplingur heitir réttu nafni var mjög vinsæll bíll á Íslandi upp úr 1980. Söluumboð fyrir bílinn og aðra bíla af Lada gerð var hjá Bifreiðum og Landbúnaðarvélum en með vaxandi velmegun tóku Íslendingar að líta til fleiri átta í bílamálum, áhugi fyrir ódýrum og einföldum rússneskum bílum fjaraði út og loks hætti B&L hreinlega að flytja inn rússneska bíla.

http://www.fib.is/myndir/Lada-2107.jpg
Gamla Ladan, gerð 2107 enn
framleidd.
http://www.fib.is/myndir/Lada-Kalina.jpg
Lada Kalina er nýlegur smábíll.
http://www.fib.is/myndir/Lada-Priora-2011.jpg
Lada Priora, millistærðarbíll.
http://www.fib.is/myndir/Lada-long.jpg
Nýja lengda gerðin af Lada Niva.

Hinn mikli floti Lada bíla sem til var í landinu gekk smám saman úr sér en síðan hófust tíðar landanir rússneskra verksmiðjutogara hér á landi og sjómennirnir á þeim voru hreinlega óðir í gamlar Lödur og ryksuguðu á fáum árum upp allt sem til var af þeim. Lödur eru síðan afar sjaldséðar hér á landi.

En í seinni tíð er einum og einum Lada Sport tekið að bregða fyrir á götum og vegum.  Það er fyrst og fremst bílalegan Geysir í Reykjanesbæ sem flytur þá inn vegna bílaleigustarfseminnar. Það eru ekki síst erlendir leigutakar sem sækjast eftir því að taka þessa bíla á leigu að sögn starfsmanns bílaleigunnar í samtali við fréttavef  FÍB. Hann segir bílana reynast ágætlega og þeir bili ekkert frekar en aðrar tegundir og gerðir bílaleigunnar.

Lada bílaframleiðslan var upphaflega samvinnuverkefni Fiat á Ítalíu og Sovétstjórnarinnar. Reistur var heill verksmiðjubær með verksmiðjum, birgðageymslum, samgöngu- og flutningaleiðum og íbúðahverfum fyrir starfsfólkið og fékk bærinn nafnið Togliatti. Fyrsta Ladan var í raun Fiat 124 sem verið hafði vinsæll bíll í Evrópu um árabil og m.a. verið kjörinn bíll ársins í álfunni. Rússneska útgáfan, Ladan, var nokkuð styrkt umfram Fiat 124 til að þola hina afleitu rússnesku vegi sem þar voru og eru mikið til enn. Lödurnar, sérstaklega sú fyrsta, Lada 1200, reyndist ágætlega á Íslandi og með góðri hirðu og viðhaldi gátu þeir enst mjög lengi og dæmi eru um bíla sem entust ótrúlega lengi og vel og það án stórviðgerða að neinu marki.

En svo hönnuðu Rússarnir sjálfir jepplinginn sem hér fékk nafnið Lada Sport. Þetta var um margt tímamótabíll. Hann var byggður eins og fólksbíll með sjálfberandi yfirbyggingu sem þá þekktist ekki í jeppum og með sítengdu aldrifi sem einnig þekktist vart. Þetta er enn sami bíllinn og áður nema að í stað gömlu 1,6 l vélarinnar með tímakeðju og blöndungi er komin 1,7 l vél með tímareim og Bosch bensíninnsprautun. Nýja vélin er afar þýðgeng og varla heyrist í henni né finnst fyrir henni í hægagangi. Bíllinn er hins vegar ekki hljóðlátur í akstri því þegar ekið er af stað upphefst hávær söngur í gírkassa og drifum.

Fólksbílarnir voru allir í grunninn Fiat 124 en með tímanum komu nýjar gerðir sem aðallega fólust í smá útlitsbreytingum og 1,5 og 1,6 lítra vélar tóku að verða fáanlegar sem og fimm gíra gírkassar í stað 1,2 l vélarinnar í Lada 1200 og fjögurra gíra kassans. Allir voru þessir bílar með drifi á afturhjólum. Það var ekki fyrr en Lada Samara birtist að framhjóladrifið kom til sögunnar.

Ekki er hægt að segja að mikill gangur hafi verið á bílaframleiðslunni hjá Lada síðustu ár. Bílarnir hafa verið þeir sömu að mestu þar til nú á síðustu árum að tekið er að örla  á breytingum og nýjar gerðir teknar að birtast.