Nýir Lundúnaleigubílar

Nissan hefur þróað nýjan leigubíl sem leysa mun af hólmi gömlu breskbyggðu kubbslegu bílana sem hafa verið meira og minna eins um margra áratuga skeið. Bílarnir eru, svipað og nýju New York leigubílarnir sem þessar vikurnar og mánuðina eru að leysa gömlu Ford Crown Victoria drossíurnar af hólmi þar, byggðir á Nissan NV200 sendibílnum.

http://www.fib.is/myndir/Nissan-London-2.jpg

Nýju Lundúnaleigubílarnir frá Nissan eru ekki ósvipaðir gömlu Lundúnatöxunum. Ekkert farþegasæti er fram í heldur í þess stað rými fyrir farangur. Fimm farþegasæti eru í rýminu afturí, þar af tvö í bakvísandi fellistólum.

Bílarnir eru að öðru leyti mjög svipaðir nýju New York leigubílunum nema þeir eru 20 sm breiðari. Þeir uppfylla allar kröfur sem flutningadeild Lundúnaborgar gerir til leigubíla, m.a. þær að hafa rými fyrir hjólastóla og geta nánast snúið við á punktinum (hafa beygjuradíus sem er 7,6 m eða minni). Vélin verður 1,5 l, 89 ha. dísilvél sem með túrbínu er 110 ha. Bílarnir munu eyða um helmingi þess eldsneytis sem gömlu bílarnir eyða á sömu vegalengd. 89 hestafla vélargerðin uppfyllir kröfur Euro-5 mengunarstaðalsins, eyðir 5,3 lítrum á hundraðið og losar 139 grömm af CO2 á kílómetrann.

Í frétt frá Nisssan segir að ef allir leigubílarnir í London yrðu endurnýjaðir í NV200 bílinn á einu bretti, myndi 37.970 tonnum minna af CO2 berast út í andrúmsloftið.