Nýir rafbílageymar

Líklegt er að rafbílar leysi brunahreyfilsbílana af hólmi. Það er bara tímaspursmál hvenær. Undanfarin fá ár hefur vart liðið  sá mánuður að ekki birtist fréttir af tækninýjungum sem gera rafbíla stöðugt vænlegri arftaka olíu- og bensínbílanna. Nú síðast voru það fregnir af nýjum ál-rafhlöðum hjá Stanford háskóla sem eru verulega afkastameiri en líþíumrafhlöðurnar sem fyrir fáum árum voru hrein bylting. En því til viðbótar eru ál-rafhlöðurnar verulega ódýrari og léttari, brunahætta af þeim er svo til engin og svo snöggar eru þær að taka hleðslu að innan við tvær mínútur tekur að hlaða þær. En svo stuttur hleðslutími kallar óhjákvæmilega á gríðarlega öflugar rafleiðslur til orkustöðvanna sem í dag kallast bensínstöðvar.

Þessi ofur-rafhlaða háskólafólksins í Stanford er að vísu hugsuð sem rafhlaða fyrir fartölvur og farsíma, en það voru auðvitað líka líþíumrafhlöðurnar líka, en kostir þeirra fram yfir blý-sýrugeymana gömlu og aðrar rafhlöður leiddu til þróunar og notkunar þeirra í bílum. Hið sama mun líklega gerast með álrafhlöðuna í fyllingu tímans. Og ef kostir álrafhlöðunnar reynast í líkingu við það sem sagt hefur verið í fréttum um hana, þá gæti hún orðið stökkpallur rafbílsins ekki ósvipað því sem brunahreyfillinn var fyrir bílinn í upphafi bílaaldar fyrir rúmri öld.

Segja má að ef nokkurt svæði jarðar er heppilegt fyrir rafbíla þá er það Ísland. Hér er gnótt sjálfbærrar raforku og nærtækara væri að nýta hana meir til að knýja samgöngutæki landsins en að standa í því að flytja inn dýra matarolíu um þveran hnöttinn til að blanda í dísilolíu og búa til spíra (etanól og metanól) til að þynna út bensínið til að uppfylla hertar CO2 losunarkröfur. Sjá þessa frétt.

Það sem hefur hamlað útbreiðslu rafbílanna er einkum þrennt: a: Langur hleðslutími rafgeyma. b: Takmarkað drægi. C: Takmarkaðir hleðslumöguleikar. Loks er verð rafbíla enn tiltölulega hátt, en fer lækkandi. En rafbílar hafa þróast hratt að undanförnu og til almennra daglegra nota duga þeir flestum ágætlega. Það er ekki fyrr en þarf að fara um langan veg sem málið vandast.

Grannþjóðir okkar; Svíar og Danir vinna nú markvisst að því að efla innviði fyrir rafbíla með því að koma upp fleiri hleðslustöðum fyrir þá og þróa betri hleðslutækni og –tæki og gera rafbílana nýtanlegri til lengri ferðalaga en áður. Þetta er gert í góðri samvinnu hins opinberra og einkaaðila. Dæmi um það er að Öresundkraft, orkuveita Helsingborgar við Eyrarsund (gegnt Helsingör í Danmörku), vinnur nú að því að setja upp eina 40 hleðslustaði meðfram fjölförnustu vegum til norðurs og norðausturs frá Helsingborg, m.a. í átt til Gautaborgar og Stokkhólms.

Sérstakt dótturfyrirtæki orkuveitunnar annast verkefnið og á um það nána samvinnu við danska tæknifyrirtækið Clever sem framleiðir og þróar hraðhleðslustöðvar og hverskonar tæknibúnað tengdan rekstri rafbíla. Þessar hraðhleðslustöðvar eiga að geta nýst öllum tegundum og gerðum rafbíla sem er mikilvægt, því að enn hefur ekki orðið til sameiginlegur staðall yfir hleðslubúnað og rafmagnstengla rafbíla.