Nýjar áherslur í vegagerð á Íslandi

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarna daga um áherslur í vegagerð á Íslandi.  Því miður hafa stjórnvöld valið að fara leiðir sem aldrei hafa átt við og aðrar þjóðir eru löngu búnar að leggja til hliðar.  Ákvarðanir eru teknar á pólitískum forsendum, byggðar á pólitískum þrýstingi, skammtíma sjónarmiðum, kjördæmaskiptingum og hentistefnu viðkomandi svæða. Svo hefur verið um langan tíma, mörg mistök verið gerð og fjármunum sóað í gæluverkefni, þar sem fagleg sjónarmið eru ekki lögð til grundvallar. 

Oftar en ekki er látið undan þrýstingi ýmiskonar, byggðasjónarmiðum, atvinnusköpun til skamms tíma og hentistefnu viðkomandi stjórnmálamanna.  Viðurkenndar aðferðir varðandi samgöngur eru ekki teknar til greina, hvað þá hagkvæmni og góð meðferð fjármuna.  Í þessu efni nægir að nefna Héðinsfjarðargöng, Suðurstrandaveg, tvöföldun Suðurlandsvegar, lýsingu Reykjanesbrautar, Sundabraut (göng) og nú síðast áform um Vaðlaheiðargöng. 

Margar þessara framkvæmda hafa verið svo beiskar og seigar undir tönn, að fjölda ára hefur tekið að koma þeim ofaní kokið á þjóðinni og meira að segja hafa sumir stjórnmálamenn verið með óbragð í munninum.  Í því sambandi dugar að nefna Suðurstrandaveg og Héðinsfjarðargöng.  Undantekningar frá þessu, þar sem þokkalega hefur tekist til, eru Hvalfjarðargöng og Bolungarvíkurgöng, en við þær framkvæmdir var gætt að fleiri þáttum og vel farnast eins og í tilfelli Spalar í Hvalfjarðargöngum, þó svo að þar megi margt betur fara.

En nóg um fortíðina. Hvernig eigum við að standa að þessum málum til framtíðar, sérstaklega þegar árar eins og nú?  Á krepputímum er skynsamlegt að fara í mannfreka uppbyggingu innviða í verkefnum sem almennt eru ekki unnin á uppgangstímum.  Þar kemur vegagerð mjög til greina, enda hafa aðrar þjóðir beitt sér fyrir slíku við þannig aðstæður.  Í því sambandi má nefna uppbyggingu vega í Bandaríkjunum í kjölfar kreppunar miklu, vegagerð í Þýskalandi á millistríðsárunum og nú í seinni tíð uppbyggingu Svía og annarra Norðurlandaþjóða þegar harðnaði á dalnum í efnahagsmálum.  Nú ættum við að fara í margar minni uppfærslur á vegakerfi Íslands, en láta stórmennskudrauma og óþarfa bíða betri tíðar. Með því væru innviðirnir tilbúnir þegar við þurfum á þeim að halda þegar hjól atvinnulífsins fara af stað að nýju. 

Fyrst af öllu þarf að gera framtíðar stefnu varðandi vegagerð á Íslandi. 

  1.  Þar þarf að skilgreina þá staðla sem fara á eftir og lögfesta þá.  Þetta hefur aldrei verið gert.
  2. Tala um landið sem eina heild.   Hætta að skipta upp í landsbyggð/höfuðborg eða þéttbýli.
  3. Setja sér forgangsröðun,  áherslur og markmið.  T.d. útrýma háu falli fram af vegum í vötn o.s.frv.

Við þurfum ekki að fara út í nýja skattlagningu eða vegtolla til að koma þessu í framkvæmd.  Það eru umtalsverðir fjármunir fyrir hendi í núverandi skattheimtu til samgöngumála .  Það þarf nýja hugsun og ný vinnubrögð við ákvarðanatöku, þar sem áhersla er lögð á góða nýtingu fjármagns, vinnuafls og tækja sem til eru.  Við þurfum bara að nýja nálgun, þar sem áhersla væri lögð á þjóðhagslega hagkvæmni og fækkun slysa, sem kosta okkur um það bil 2 – 3% af þjóðarframleiðslu árlega eins og staðan er. 

Þegar landið er skoðað með tilliti til slysa myndast nokkrir klasar, sem hægt væri að ráðast til atlögu við. (Sjá mynd)

http://www.fib.is/myndir/Slysakort-Umf.jpg

Það þarf að nota fagleg vinnubrögð við ákvarðanatöku í vegagerð á Íslandi.  Það byggist á:

  • Umferðarmagni og umferðarflæði.
  • Fjölda alvarlegra slysa og banaslysa.
  • Tegundum slysa og orsökum.
  • Stjörnugjöf og öryggismati (EuroRAP RPS).
  • Slysakortum með tilliti til umferðarmagns (EuroRAP RRM).
  • Hagkvæmustu lausnum með tilliti til fækkunar slysa.
  • Kostnaði við mismunandi lausnir.
  • Stöðlum fyrir vegi.
  • Erlendum fyrirmyndum, upplýsingum og ráðgjöf.
  • Ákvörðunum byggðum á faglegu mati, ekki pólitískum geðþótta og þrýstingi.

Í núverandi kreppuástandi  væri mikið nær að fara í mjög margar litlar framkvæmdir um allt land, þar sem ónotuð fyrirliggjandi tæki væru sett í gang og mönnuð fólki sem nú er á atvinnuleysisskrá.  Þetta kostar einungis erlenda olíu.  Nánast allt hráefni er innlent, sem og vinnuaflið.  Hægt er að byrja strax og í raun hefur 2 árum verið sóað nú þegar.  Verkefnum væri raðað niður á alla landshluta og byrjað þar sem þörfin er mest, byggt á slysasögu, umferðarmagni, EuroRAP niðurstöðum o.s.frv.  Með þessu mætti ná fram verulega bættu umferðaröryggi á landsvísu fyrir lítið fé, á mjög skömmum tíma og skapa fjölda fólks atvinnu.  Meðal verkefna má nefna

  • Lagfæringu fláa.
  • Ljúka útrýmingu einbreiðra  brúa.
  • Breikkun og bætt burðarþol helstu vega, sérstaklega hringvegarins.
  • Lagfæring ræsa og skurða við vegi.
  • Fjarlægja hættulega hluti, svo sem grjót og kletta.
  • Ljúka við bundið slitlag á hringveginum og helstu leiðum.
  • Setja upp vegrið á hættulegum stöðum o.s.frv.

Sem dæmi um  mannfrekt verkefni væri að  laga veginn við austanverðan Eyjafjörð, sem myndi gagnast miklu fleiri en Vaðlaheiðargöng og væri raunveruleg umferðaröryggisbót, sem væri mun betri nýting fjármuna og meira umferðaröryggismál.  Um helmingur þeirra sem aka um austanverðan Eyjafjörð mundu nýta sér göngin.  Sama á við um veg 1 í Öxnadal, veg 82 - Ólafsfjarðarveg, veg 85 til Húsavíkur og veg  - 76 Siglufjarðarveg.  Á höfuðborgarsvæðinu þarf að fara í fjölda úrbóta, en þar hefur nánast ekkert verið gert í mörg ár.  Þá þarf að uppfæra Strákagöng og Ólafsfjarðargöng í EU54 og þannig gera fært fyrir alla landsmenn í Héðinsfjarðargöng, úr því að þau eru tilbúin. 

Í tengslum við EuroRAP öryggisúttektina sem FÍB hefur unnið að undanfarin ár, hefur mikil þekking orðið til, bæði varðandi stöðu vegakerfisins á Íslandi og ekki síður innsýn inn í það sem aðrar þjóðir hafa lagt til grundvallar á síðustu arum og  áratugum.  Meðal þess má nefna þau viðmið sem menn leggja til grundvallar varðandi hagkvæmni og það umferðarmagn sem þarf til að réttlæta mismunandi útfærslur.  Hvort sem litið er til Evrópu, Ástralíu eða Bandaríkjanna kemur sama í ljós.  Það er þörf fyrir 2+1 vegi þegar umferðarmagn á ársgrundvelli er komið yfir 10.000 bíla á dag.  2+2 vegir eru ekki hagkvæmir, fyrr en umferðarmagnið er komið um og yfir 20.000 bíla á dag.  Þetta eru staðreyndir sem við verðum að taka til greina og miða framkvæmdir við það.  Allt annað er bruðl og offjárfesting, nokkuð sem við höfum ekkert efni á, síst af öllu um þessar mundir.

Nú á að efna til skuldabréfaútboðs, eftir að lífeyrissjóðirnir gengu úr skaftinu og binda þar með allt framkvæmdafé til vegagerðar næstu ára í kjördæmapot og atkvæðaveiðar nútímans.  Þetta rugl í kringum vegtolla, sem sumir þingmenn eru  að berjast fyrir, verður að stöðva með öllum ráðum. Lán hafa þann ókost að þau þarf að greiða til baka með vöxtum, það hafa undanfarin svokölluð uppgangsár sannað.  Vegtollar verða aldrei lausnin í þessu efni, enda bara áform upp í ermina sem engin sátt verður um.  Við erum skattlögð nú þegar með sanngjörnum hætti sem sátt hefur verið um þótt deila megi um upphæðir. Það fé á bara að nýta skynsamlega og láta það duga.  Þeim peningum sem aflað er nú verður bara að verja í það sem þeim er ætlað að fara í, en ekki í óskyld mál, duttlunga stjórmálamanna eða gæluverkefni.

Því segjum við hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.  -Ráðumst á þetta núna og reynum að koma viti fyrir ráðamenn varðandi vegagerð til framtíðar og stoppa þetta pólitíska moð sem nú er í gangi og hefur viðgengist um áratugi.  Alltof margar af þeim hálfkláruðu og misheppnuðu framkvæmdum sem nefndar  eru hér að framan eru afleiðingar þess háttar ákvarðanatöku. 

 Reykjavík 15.desember 2010.
 Ólafur Guðmundsson, varaformaður FÍB.
Tæknistjóri EuroRAP á Íslandi.