Nýjar bílaálögur -vegatollmúr um höfuðborgina

Nýjar álögur á fjölskyldubílinn eru boðaðar  í fjárlagafrumvarpinu í ofanálag við þær gríðarlegu hækkanir sem orðið hafa frá 2008.

Stjórnvöld juku stórlega álögur á almenning vegna notkunar fjölskyldubílsins í kjölfar hrunsins haustið 2008. Fyrir utan hærri skatta þá hefur allur annar tilkostnaður við rekstur bílsins margfaldast. Og í ofanálag hefur gengishrun krónunnar snarhækkað verð á nýjum bílum með þeim afleiðingum að fara verður aftur til sjöunda áratugar síðustu aldar til að sjá jafnfáar nýskráningar og undangengin tvö ár.

Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir alþingi til afgreiðslu eru menn að vísu loðmæltir um það sem þeir ætlast fyrir. Orðalag er víða með þeim hætti að svo virðist sem meðvitað sé leitast við að hafa textann óskýran og lítt gagnsæjan. En þegar rýnt er í hann má þó vel lesa þá fyrirætlan stjórnvalda að höggva enn í sama knérunn og hækka ennþá einu sinni bensín- og dísilolíuskatta. Þessar ætluðu hækkanir munu hafa í för með sér um 5,50 króna hækkun á hvern lítra af bensíni.

En ekki er öll sagan þó enn sögð: Stjórnvöld áforma einnig að leggja vegtolla á helstu þjóðvegi út frá höfuðborgarsvæðinu sem hafa munu í för með sér tugþúsunda króna árlegan viðbótarkostnað fyrir íbúa á Suður- og Suðvestur- og Vesturlandii sem sækja vinnu, skóla eða þjónustu á milli byggðarlaga og reyndar á alla aðra landsmenn sem þurfa að sækja til höfuðborgarinnar.

Þótt talsmenn þessa gerræðis reyni að gera lítið úr fyrirætlunum sínum og feli þær bak við tal um ávinning af bættu umferðaröryggi á betri vegum að og frá höfuðborg Íslands, er ætlunin augljós. Hún er sú að reisa vegatollamúr umhverfis höfuðborgarsvæðið og fela hlutafélögum yfirráð yfir öllum ökuleiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Þessi félög eiga að bjóða út vegaframkvæmdir, afla lánsfjár hjá lífeyrissjóðunum og innheimta síðan afborganir og vexti af lánunum með vegatollum. Innheimtan á að hefjast eftir ca. fimm ár þegar endurbættu vegirnir verða tilbúnir.

Talsmaður þessara fyrirætlana er fyrrverandi samgönguráðherra - upphafsmaður málsins. Hann reynir að skýla sér á bak við tal um að með þessu verði umferðin í kring um höfuðborgina öruggari. Síðan setur hann jafnaðarmerki milli þess að vera á móti þessum makalausu fyrirætlunum og að vera á móti umferðaröryggi almennt!

Með þessu makalausa máli eru stjórnvöld að rjúfa þjóðarsátt sem lengstum hefur ríkt um fjármögnun íslenskra þjóðvega. Í henni hefur falist það að notendur veganna greiða fyrir vegaframkvæmdir og viðhald vega með notkunarsköttum sem leggjast á bifreiðaeldsneytið. Um þetta fyrirkomulag hefur ríkt almenn sátt þótt upphæðir notkunarskattanna hafi tíðum verið álitaefni.

Umferðarmælingar sýna að dregið hefur verulega úr umferð á því tímabili sem liðið er frá efnahagshruninu, m.a. vegna þess að almenningur hefur illa efni á því að nota bílinn vegna aukins reksturskostnaðar. Þessi staðreynd bitnar á ferðaþjónustu og félagslegu samneyti fjölskyldna og vina. Verst bitnar þetta á fólki sem býr í dreifbýlinu og þarf að sækja alla þjónustu með einkabílnum. Þær hækkanir sem fyrirhugaðar eru og fram koma í fjárlagafrumvarpinu munu enn draga úr umferð.

Loks mun vegatollmúrinn sem verið er að koma upp umhverfis höfuðborg Íslands bæta um „betur.“ Komist hann í framkvæmd mun hann verða minnisvarði um eina mögnuðustu aðför að öllum þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu og öllum þeim sem búa utan þess en eiga afkomu sína að sumu eða öllu leyti undir því að samgöngur séu sem greiðastar og bestar við höfuðborgarsvæðið.