Nýjar ES-reglur um þjónustu við nýja bíla

Evrópusambandsráðið samþykkti í síðustu viku nýjar samkeppnisreglur um sölu og þjónustu nýrra bíla á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt þeim er það nú hafið yfir allan vafa að ekki þarf eingöngu að fara með bíla á sérstök verkstæði viðurkennd af bílaframleiðendur og umboðsaðilum þeirra, til að framleiðsluábyrgðin haldist í gildi. Hvaða fullgilt verkstæði sem er má nú þjónusta bíla á ábyrgðartíma án þess að ábyrgðin falli úr gildi. Þessar nýju reglur tóku gildi í morgun, 1. júní. 

 Þessar nýju reglur eru hluti af svonefndum BER-reglum (Block Excemption Rules) sem gilda um bíla í Evrópu. Í mjög grófum dráttum má segja að BER-reglurnar séu undanþága frá samkeppnisreglum enda veita þær bílaframleiðendum heimild til að taka einkaleyfi á nýjum bílum og/eða einstökum hlutum þeirra um lengri eða skemmri tíma. Þetta hefur þýtt að t.d. framleiðendur íhluta og varahluta máttu ekki selja ódýra varahluti eða í bílana fyrr en eftir að einkaleyfin eru úr gildi fallin. Og það hefur þýtt að hafi bíll verið þjónustaður og smurður á óháðu verkstæði og í hann settar „ó-original“ síur gat það eitt og sér nægt til að framleiðsluábyrgð bílsins félli niður. Eigendur bílanna hafa þannig verið ofurseldir (venjulega) rándýrum „original“ varahlutum umboðsaðila og hafa einnig verið þar til nú, ofurseldir rándýru þjónustueftirliti söluaðila nýrra bíla meðan ábyrgðartíminn gildir.

Bifreiðaeigendaklúbbarnir í Evrópu, systurfélög FÍB, og heildarsamtök þeirra; FiA hafa lengi gagnrýnt þetta fyrirkomuleg harðlega og krafist leiðréttingar og má segja að hinar nýju og rýmkuðu samkeppnisreglur Evrópusambandsins séu árangur langrar og harðrar baráttu gegn þessum einokunarreglum. Í fréttatilkynningu frá FiA segir að nýju reglurnar þýði að nú geti bíleigendur sjálfir valið þau verkstæði sem þeir treysta til að þjónusta bíla sína og frjálsu löggiltu verkstæðin fái loks ráðrúm til að keppa um vinnuna á jafnréttisgrunni. Nýju reglurnar muni því leiða til lægri útgjalda bifreiðaeigenda.

 Nýju reglurnar sem tóku gildi í morgun höggva umtalsvert á það samráð sem verið hefur við lýði í bílgreininni í Evrópu milli bílframleiðenda annarsvegar og hinsvegar innflutnings- og söluaðila, verkstæða, varahluta- og þjónustuaðila á þeirra vegum. Auk þess að rýra samráðsheimildir þessara áðurnefndu aðila þá ná nýju reglurnar einnig til þess hvaða varahluti og íhluti má nú nota við þjónustu og viðgerðir bíla. Ekki þarf lengur að nota einungis „original“ hluti eins og , t.d. síur og hemlahluti. Jafnframt eru framleiðendur bíla nú skyldir til að veita öðrum löggiltum verkstæðum en sínum „eigin,“ aðgang að tæknilegum upplýsingum um bílana sem nauðsynlegar kunna að vera til að viðgerð eða þjónusta við bílinn geti farið fram. 

Reglurnar þýða því að óháðu verkstæðin geta nú keypt varahluti og íhluti á frjálsa markaðinum þar sem verðið er best hverju sinni og framleiðendurnir og samstarfsaðilar þeirra geta ekki lengur neitað því að láta af hendi nauðsynlegar tæknilegar upplýsingar til að viðgerðir og þjónusta við bílinn geti farið fram.

Joaquin Almunia samkeppnisstjóri Evrópusambandsins segir að viðhald og þjónusta við bílinn nemi almennt um 40% af heildar reksturskostnaði bíla. Nýju reglurnar muni leiða til þess að þessi kostnaðarliður muni lækka umtalsvert.  Þá séu í nýju reglunum rýmri heimildir fyrir samkeppnisyfirvöld hvers lands að grípa inn í ef bílaframleiðendur og umboðsaðilar þumbast við að hlíta reglunum og reyna t.d. að halda því til streitu að enginn nema þeir sjálfir megi skipta um olíu og smyrja bílinn, eigi ábyrgðin að gilda áfram.

Á hinn bóginn er umboðsaðilum bílaframleiðandans fullkomlega heimilt að nota eingöngu „original (dýrar!) síur og olíur ef bíleigandinn fer til þeirra  með bílinn í smurningu og þjónustueftirlit á ábyrgðartíma.