Nýjar neytendamerkingar hjólbarða

Evrópusambandið hefur lögfest nýjar merkingar fyrir hjólbarða sem hafa þann tilgang að hjálpa neytendum að velja réttu sumar- eða vetrarhjólbarðana. Merkingarnar eiga að sýna skýrt og auðveldlega þau atriði sem mestu skipta, sem eru eldsneytiseyðsla (núningsmótstaða) hjólbarðanna, veggrip í bleytu og veggnýr mældur í decibelum. Nýju reglurnar hafa þegar tekið gildi og eiga allir nýir hjólbarðar að vera komnir með merkingar í samræmi við þær í síðasta lagi fyrir nóvember á þessu ári. FÍB telur þessar nýju merkingareglur vera af hinu góða og stuðla að betra öryggi neytenda í dekkjakaupum og vera góða viðbót við þær upplýsingar, sem stóru hjólbarðakannanirnar sem FÍB blaðið birtir hvert haust og vor, veita.

http://www.fib.is/myndir/Dekkjamerking.jpg


Það hefur vissulega verið þrautin þyngri eða jafnvel ómögulegt hingað til að lesa út úr merkingum á hjólbörðunum ýmsa eiginleika þeirra sem máli skipta fyrir hvern og einn kaupanda. Upplýsingar um marga eiginleika dekkja hefur hingað til nánast eingöngu verið að fá út úr dekkjaprófunum óháðra aðila. Nýju merkingareglurnar eru þannig góð viðbót við kannanirnar, því að eins og þær hafa sýnt, er munur á dekkjum.

Nýju merkingarnar eru auðlæsilegar enda byggjast þær á sömu hugsun og alþekktar merkingar á t.d. þvottavélum og fleiri heimilistækjum. Þær sýna einskonar þrepaskiptingu og hvað varðar eiginleika í bleytu þá táknar hvert þrep niðurávið aukna hemlunarvegalengd upp á sex metra viðað við nauðhemlun á 80 km hraða. Munurinn á því hvort dekk sé að þessu leyti í A eða F þrepi þýðir þannig yfir 18 metra mun á hemlunarvegalengd.