Nýjar ofurrafhlöður?

Nú eru teknar að birtast fréttir á ýmsum Netmiðlum af nýrri japanskri ofurrafhlöðu fyrir rafbíla. Sé fótur fyrir þessum fregnum gæti hún verið loksins komin, rafhlaðan sem heimurinn hefur verið að bíða eftir. Rafhlaðan á að sögn að geyma í sér nægan straum til að komast 600 kílómetra á rafbílnum í einni lotu í stað 100, sem nú er algengt drægi rafbíla.

En ekki nóg með hversu rafhlaðan er öflug, heldur er hún líka sögð kosta einungis þriðjung þess sem núverandi bílarafhlöður kosta. Hún sé auk þess háskaminni ef árekstur verður, en núverandi líþíumrafhlöður. Sænska dagblaðið Dagens Industri greinir frá þessu og vitnar í m.a. í finnskan fjölmiðil.

Samkvæmt fréttinni eru það fræðimenn hjá japanska hátæknifyrirtækinu Sekisui Chemical sem fundið hafa upp nýja rafhlöðutækni. Hún er sögð einkum lúta að því að ganga á einhvern nýjan og sérstakan hátt frá pólunum í rafhlöðunni auk nýrrar hlaupkenndrar efnablöndu með mikilli rafleiðni. Þá sé auðvelt að byggja rafhlöðurnar með nánast hvaða lögun sem er. Rafhlaða geti þessvegna litið út eins og þunn plata en það gefur margvíslega möguleika í því að byggja rafbíla. Þessar nýju ofurraffhlöður eru sagðar vera í umfangsmiklum prófunum um þessar mundir og séu að þeim loknum væntanlegar á markað 2015.