Nýjasta hlaða ON á Minni Borg

Tuttugasta og sjöunda hlaða Orku náttúrunnar fyrir rafbílaeigendur er komin í gagnið. Gunnar Þorgeirsson oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps hlóð fyrsta rafbílinn í nýrri hlöðu við Minni-Borg nú í vikunni. Smáforrit ON – ON Hleðsla – hefur verið uppfært og þjónar rafbílaeigendum nú enn betur en áður.

Gunnar Þorgeirsson fagnar framtaki ON og þeirri áherslu fyrirtækisins að setja hlöður upp í dreifbýlinu. „Þetta er öryggisatriði auk þess að vera mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem veitt er hér í okkar samfélagi, bæði fyrir íbúa og gesti,“ bætir oddvitinn við. Í Grímsnes- og Grafningshreppi eru einhverjar mestu sumarhúsabyggðir í landinu.

Hlaðan við Minni-Borg er önnur hlaðan sem tekin er í notkun á þessu ári því í janúarlok var hlaða sett upp á Stöðvarfirði. Sú síðarnefnda er þáttur í því verkefni ON að opna hringveginn fyrir rafbílaeigendum. Hlaðan á Minni-Borg er hinsvegar sú fyrsta sem ON setur upp í uppsveitum Suðurlands. Hlöðunum á eftir að fjölga talsvert á þessu ári og hringnum verður lokað fyrir páska.

Nú er einnig tilbúin ný og endurbætt útgáfa af smáforritinu ON Hleðsla. Appið sýnir hvar hlöður ON er að finna, stystu leið að þeim, hvaða tengjum þær eru búnar og hvort þær eru uppteknar eða í viðhaldi.

Endurbæturnar á appinu fela meðal annars í sér að notendur geta stillt það á sína tegund af tengi þannig að upplýsingar um hvort hraðhleðsla er til reiðu á hverjum stað verða sniðnar eftir þeirri stillingu. Hraðhleðslur ON eru allar með tvær til þrjár gerðir af hleðslutengjum. Þá geta rafbílaeigendur nýtt appið til að fá yfirlit yfir kaup sín á þjónustu í hlöðum ON.

Um mánaðamótin hófst sala á þjónustunni. Sú viðbót er nú í appinu að í því er að finna allar hleðslur sem ON er kunnugt um í landinu, hvort sem þær eru reknar af ON eða öðrum.