Nýju bílarnir duga betur

http://www.fib.is/myndir/Suzuki_Liana_Rear.jpg
Suzuki Liana. Fæstu athugasemdir í fyrstu skoðun þriggja ára gamalla bíla í Svíþjóð.

Frá þessari tölfræði er greint í Dagens Nyheter og það virðist ekki gleðja Svíana neitt sérstaklega að meðal þeirra bíla sem verst koma út úr fyrstu ársskoðun er Volvo XC90. Fjórði hver XC90 dísilbíll stóðst ekki skoðunina og þurfti að koma til endurskoðunar.  Algengasta ástæða var stöðuhemillinn eða handbremsan. En þegar á heildina er litið hafa bílarnir verið að batna: árið 2000 stóðust 35% þriggja ára bíla ekki fyrstu skoðun og voru boðaðir í endurskoðun eftir viðgerð. Í fyrra hafði vandamálabílunum fækkað niður í 30%.

Algengasta ástæða þess að bílarnir standast ekki fyrstu skoðun er slit í stýrisliðum (spindlum og stýrisendum). Þær bílategundir og -gerðir sem verst koma út eru Renault Trafic og Renault Espace ásamt Peugeot 407. 22 prósent Renault Trafic stóðst þannig ekki skoðun. Allt annað reyndist svo með Renault Laguna. Sá bíll hefur batnað mjög og stokkið upp úr 23 prósenta „falli“ í einungis 5 prósent í fyrra.
 
Dagens Nyheter segir að ráðamenn hjá Renault í Frakklandi hafi fengið nóg af arfaslökum árangri Laguna bílanna í þessum gæðamælingum hjá Svíum og sent sendinefnd af stað norður til Svíþjóðar til að komast að því hvað það væri sem ylli þessum ósköpum. Svarið hafi reynst ósköp einfaldlega það að alltof lítill smurningur væri á spindlum og stýrisendum bílanna og lélegar þéttingar. Síðan kæmist raki og salt inn í liðina og þeir ryðguðu og eyðilögðust. Frágangurinn á stýrisliðunum í Laguna var lagaður og vandinn nánast hvarf.

Út úr þessari tölfræði sænska bifreiðaeftirlitsins má lesa þá undarlegu staðreynd að það er eingöngu í evrópskum bílum sem stýrisliðirnir endast svo illa að þeir hafna á botninum í samanburði við aðra bíla. Vandamál af þessum toga fyrirfinnast t.d. ekki hjá Toyota.

Tölfræðingur hjá eftirlitinu segir við DN að tölfræðin gefi ekki óyggjandi mynd af því hvort almenn ending bíla hafi batnað síðustu árin eða ekki. En bílasala hafi undanfarin góðærisár verið mikil í Svíþjóð og um 300 þúsund nýir bílar bæst í flotann árlega og meðalaldur bíla lækkað. Í kreppunni sem nú ríkir hafi sala nýrra bíla dregist mjög saman og meðalaldur bíla eigi því eftir að hækka. Tölfræðin um átta til 12 ára gamla bíla hafi þó ekkert breyst. Um það bil 35 prósent þeirra standist ekki skoðun og þurfi að koma aftur í endurskoðun eftir viðgerðir. Þegar bílarnir eru orðnir 15 ára sé reynslan ennþá sú að um 50 prósent þeirra þurfi að koma aftur í endurskoðun.

Toyota er í sérflokki hvað varðar gæði eldri og gamalla bíla. Þannig eru átta ára gamlir Toyotabílar meðal þeirra 20 bílategunda sem fæstar athugasemdir fá í skoðun. Átta gerðir átta ára gamalla Toyotabíla eru semsagt meðal þeirra 20 bestu. Á listanum yfir 10 ára gamla bíla eru það Toyotur sem eru í tíu efstu sætunum af 20.

Tölfræðin sýnir að það er ryðið og tæringin sem er sá þáttur sem mest þjakar eldri bílana, en taka skal fram að Svíarnir skoða einungis ryð í burðarvirki og hlutum sem tengjast öryggi bílanna. Ford Escort virðist ryðsækinn og 40 prósent 10-12 ára gamalla Ford Escort bíla reynast vera með alvarlegar ryðskemmdir. En það er fleira en burðarbitar sem vilja ryðga því að bremsurör í 10 ára gömlum bílum og eldri eru oft ryðguð. Þannig voru rörin ryðguð í 18 prósentum Saab 9-3 dísil af árgerð 1998 og þurfti að mæta í endurskoðun með bílana af þeim sökum.

Bestu bílarnir
 Enginn bíll af eftirfarandi 15 tegundum og gerðum þriggja ára gamalla bíla stóðst ekki fyrstu skoðun
    1. Suzuki Liana.
    2. Lexus RX400h, tvinnbíl.l
    3. Ford Fusion.
    4. Saab 9-5, fólksb, bensín/etanol.
    5. Porsche Cayenne.
    6. Porsche 911.
    7. VW Caddy, sendibíll.
    8. VW Touran, dísil.
    9. Kia Rio
    10. VW Sharan.
    11. Ford Focus.
    12. Toyota Avensis fólksbíll.
    13. Audi A4 Avant.
    14. Subaru Forester.
    15. Toyota Corolla.

   
    Verstu bílarnir (endurskoðunarhlutfall í sviga við nafn hvers bíls).
    178. Chrysler Grand Voyager. (17 prósent).
    179. Volvo XC90, (21 prósent).
    180. Chrysler Voyager. (22 prósent).
    181. Volvo XC90 dísil. (25 prósent).
    182. Chrysler Voyager dísil. (27 prósent).
    183. Renault Espace. (30 prósent).
    184. Renault Trafic. (32 prósent).