Nýjungar á nýjungar ofan

Bílasýningin í Frankfurt verður opnuð almenningi í fyrramálið. Blaða- og fréttamenn hafa þó fengið tveggja daga forskot að venju og var þeim hleypt inn í sýningarsalina og –skálana þegar í gær. Og Volkswagen tók að venju forskot og hélt í gærkvöldi sérstaka opnunarhátíð fyrir boðsgesti sína í gærkvöldi á hinu risastóra sýningarsvæði sínu. Volkswagen keppist nú við að verða stærsti bílaframleiðandi veraldar og komast þar með fram úr Toyota. Það er því mikið undir þar á bæ.

Sýningin í Frankfurt er haldin annað hvert ár á móti Parísarsýningunni. Umfangið í Frankfurt er meira en í París, enda er Frankfurtsýningin trúlega sú stærsta og fjölbreyttasta bílasýning veraldar. Þýsku bílaframleiðendurnir leggja gríðarlega áherslu á Frankfurtsýninguna og svo er einnig nú, eins og sjá má af upptalningunni hér á eftir. Í henni eru nýjungar þýsku bílaframleiðendanna fyrirferðarmiklar og margar hverjar talsvert merkilegar. 

Nokkrar nýjungar í Frankfurt 2011

Porsche 911

http://www.fib.is/myndir/IAA-1.jpg

Porsche sýnir glænýja kynslóð sportbíls sportbílanna; Porsche 911. Hinn nýi 911 er með 10 sm lengra hjólhaf en sá gamli en þó ekki nema 6 sm lengri. Hin aukna lengd milli hjóla er sögð ráðast af fyrirætlunum um einhverskonar tvíorkubúnað síðarmeir. En það sem telja má merkast við nýja bílinn er það að hann er allt að 16 prósent sparneytnari en áður, en alls ekki aflminni, nema síður sé. „Standard“ útgáfan er 350 hestöfl en Carrera gerðin 400 hö. og túrbóútgáfan 500 hö. Eyðsla beggja fyrrnefndu útgáfanna er samt undir 10 l á hundraðið.

 Audi Urban Concept

http://www.fib.is/myndir/IAA-2.jpg

Audi sýnir athyglisverðar frumgerðir rafknúins borgarbíls sem kallast Urban Concept. Um nokkrar útfærslur sýndar og er ætlunin að sjá hvaða viðtökur farartækin fá hjá sýningargestunum. Viðtökurnar munu síðan nokkru ráða um framhaldið. Urban Concept eru tveggja manna farartæki, opið eða lokað eftir atvikum. Þegar stigið er inn og út, er efri helmingi yfirbyggingarinnar rennt aftur og síðan stigið um borð eins og ofan í baðker. Tveir rafmótorar knýja farartækið, en annarskonar driftarbúnaður gæti orðið valkostur ef Urban Concept verður að veruleika.

 Volkswagen Up

http://www.fib.is/myndir/IAA-3.jpg

Volkswagen hefur verið að fá evrópska blaðamenn til að reynsluaka hinum nýja smábíl sínum, Volkswagen Up. Fyrstu eintökin eru væntanleg á markað innan skamms og blaðamenn sem ekið hafa bílnum hrósa honum og kalla hann hinn nýja „Fólksvagn.“.

Up er fyrst og fremst þéttbýlisbíll í flokki minnstu nútímasmábíla, svipaðurn að stærð og Fiat 500. Hann er 3,5 m langur, fjögurra manna með 251 l farangursrými sem verður að 951 þegar aftursætið er fellt niður. Up verður með öllum þeim staðal-öryggisbúnaði sem nú telst til hins almenna, þess á meðal er ESC stöðugleikabúnaður. Aukalega mun hann svo fást með radarsjón og sjálfvirkri hemlun upp að 30 km hraða, Staðalvélin er sparneytin þriggja strokka bensínvél í annaðhvort 60 eða 75 ha. útgáfum. Sú fyrri eyðir 4,2 l á hundraðíð en sú öflugri 4,3 l. Rafmótor verður svo fáanlegur frá 2013.

Mercedes B-lína

http://www.fib.is/myndir/IAA-4.jpg

Nýja kynslóðin er algerlega nýr bíll. Yfirbygging og undirvagn er hvorttveggja nýtt og sömuleiðis vélarnar sem í boði eru og verða. Yfirbyggingin er næstum 9 sm lægri en eldri gerðin var, sem þýðir lækkaðan þyngdarpunkt og öruggari aksturseiginleika. Sérstök áhersla var lögð á það við hönnun bílsins að ná loftmótstöðunni sem minnstri.

Vélin er 1,6 l að rúmtaki og ýmist 122 eða 156 hestafla. Dísilvélin er 1,8 l og ýmist 109 eða 136 ha. Gírkassar fást hand- eða sjálfskiptir og fimm til sjö gíra. Radarsjón sem hemlar sjálfvirkt ef hindrun er framundan er fáanleg. ESC stöðugleikakerfi er staðalbúnaður.

Opel Zafira og Astra GTC

http://www.fib.is/myndir/IAA-5.jpg http://www.fib.is/myndir/IAA-6.jpg

Sveigjanleg innrétting eftir þörfum hverju sinni hefur alla tíð verið aðalsmerki Opel Zafira og svo er enn í nýju kynslóðinni. Hún er sjö sæta og fella má niður öftustu þriggja stóla sætaröðina og þá fæst stóraukipð flutningsrými eða allt að 1.860 lítra. Mið-sætaröðin er þrír aðskildir stólar sem eru á sleðum eins og framstólarnir sem fólk getur stillt eftir skankalengd sinni. Aukalega má fá búnað þannig að hægt sé að snúa stólunum í ofanálag. 

Vélarnar eru þær sömu og fást í Insignia og eru bæði bensín- og dísilvélar. Allur nútíma öryggisbúnaður er ýmist staðalbúnaður eða aukabúnaður. Þannig er tölvusjón með nauðhemlun fáanleg sem aukabúnaður.

Opel sýnir einnig Astra GTC sem er þriggja dyra sportútgáfa og er ætlað að keppa við Volkswagen Scirocco. Astra GTC er með 165 ha. 380 Nm dísilvél sem eyðir 4,9 á hundraðið.

Honda Civic

http://www.fib.is/myndir/IAA-7.jpg

Honda sýnir níundu kynslóð Civic. Útliti þessa nýja bíls hefur verið vandlega leynt fram að þessu og verður ekki afhjúpað fyrr en í fyrramálið þegar sýningin verður formlega opnuð.  Honda segir bílinn verða þægilegri en nokkru sinni fyrr án þess að missa neitt af góðum aksturseiginleikum fyrirrennarranna. Civic verði einnig rúmbestur bíla í svonefndum Golf-flokki.

Mazda CX-5

http://www.fib.is/myndir/IAA-8.jpg

Mazda kynnir sérstaklega nýja kynslóð véla og undirvagna sem eiga að skila sparneytnari Mazdabílium en nokkru sinni fyrr. Fyrsti bíllinn í þessari nýju línu hjá Mazda er CX-5, sem er jepplingur í sama stærðarflokki og VW Tiguan. CX-5 var einmitt frumkynntur fyrir evrópskum blaðamönnum hér á landi nýlega.

CX-5 er með 2,2-lítra dísilvél og skilar frá sér minna en 120 grömmum af CO2 sem þýðir að hann flokkast í Evrópu sem umhverfismildur.

 BMW rafbílar

http://www.fib.is/myndir/IAA-10.jpg

BMW sýnir frumgerðir tveggja bíla, annarsvegar smábíls sem kallast i3 og sportbílsins i8. Báðir bílarnir eru sagði nánast tilbúnir í fjöldaframleiðslu og muni sáralítið breytast þegar hún hefst 2013 og 2014. Sá fyrrnefndi er fjögurra manna en ágætlega sprettharður því að rafmótorinn í honum er 170 hö. og drægið 120-160 kílómetrar. Innbyggð bensínrafstöð verður fáanleg sem aukabúnaður.

Sportbíllinn i8 er hins vegar tengiltvinnbíll. Rafmótorinn og túrbínubensínvélin skila samanlagt 350 hö sem skila sér til allra fjögurra hjóla. Báðir þessir bílar eru að mestu byggðir úr koltrefjaefnum.

 Ferrari 458 Spider

http://www.fib.is/myndir/IAA-11.jpg

458 Spider er fyrsti Ferrari sportbíllinn með miðjumótor sem er með opnanlegum málmtoppi. Málmtopurinn umræddi er úr áli og vegur 25 kílóum minna en gömlu segltopparnir.  Opnunar- og lokunartími toppsins er 14 sekúndur.

Allt er sérhannað hjá Ferrari og í þessum bíl er meira að segja hljóðið frá V8 vélinni sérhannað. Þannig er fólkið í bílnum sagt geta talað eðlilega saman og heyrt mál hvers annars á 200 kílómetra hraða með toppinn niðurfelldan.

Afturhjóladrifinn Kia

http://www.fib.is/myndir/IAA-12.jpg

Frumgerð stórs lúxusbíls er til sýnis hjá Kia. Hið óvenjulega er (amk. miðað við bíla frá Kóreu) að bíllinn er afturhjóladrifinn. Hann er sagður öflugur og hraðskreiður og er greinilega stefnt til höfuðs BMW og Mercedes lúxusbilunum. Hvort hann mun ögra þeim einhverntíman á eftir að koma í ljós.