Nýr bíll frá Nissan endurspeglar framtíðarsýn samgöngumáta

Hugmyndabíllinn IMx KURO hefur vakið mikla athygli á bílasýningunni í Genf sem lýkur nú um helgina. Bíllinn endurspeglar framtíðarsýn á samgöngumáta framtíðarinnar, en bíllinn býður ekki aðeins alsjálfvirka stjórn heldur les hann einnig heilabylgjur ökumanns.

IMx KURO er með alveg flötu gólfi sem gerir kleift að hagræða sætum til aukinna þæginda fyrir farþega og gera samræður farþeganna auðveldari þegar bíllinn sér sjálfur um aksturinn. KURO er fjórhjóladrifinn, með tvo öfluga rafmótora framan og aftan sem saman skila 320 kílówatta orku og 700 Nm togi til hjólanna. Það er meira afl en í sportbílnum Nissan GT-R. Háorkurafhlaða bílsins er ný verkfræðihönnun sem hefur meira en 600 km drægni.

Hugmyndin er að þegar ProPilot-kerfi Imx Kuro verður virkjað á stýrið að síga niður frá ökumanningum og inn í innréttinguna fyrir framan. Á sama tíma munu framsætin færast og snúast 180 gráður í átt til aftursætisfarþega um leið og sætisbökin hallast aftur til að auka þægindi og rými farþeganna. Um leið og slökkt er á kerfinu rísa sætisbökin á ný og stýrishjólið fer í sína fyrri stöðu áður en ökumaðurinn tekur á ný við stjórninni.

IMx KURO verður einnig búinn gervigreindartækninni Brain-to-Vehicle (B2V) sem Nissan er að þróa og er hið eina sinnar tegundar sem komið hefur fram. B2V les og greinir heilabylgjur ökumannsins sem segja fyrir um hegðun hans og líðan. Kerfið sér fyrir hverjar næstu aðgerðir ökumannsins verða og þannig getur B2V undirbúið virkni viðeigandi stjórntækja og flýtt viðbrögðum við ætlaðri aðgerð ökumanns um 0,2-0,5 sekúndubrot sem í vissum tilvikum getur skipt sköpum í umferðinni. 

Hönnun og tæknigeta Nissan IMx KURO verður sniðin að þörfum daglegs lífs notandans. Sem dæmi má nefna að þegar IMx KURO hefur skilað farþegum sínum á áfangastað, hvort sem er heima eða annars staðar, fer hann sjálfur til að tengjast hleðslustöð þar sem hann getur bæði tekið við raforku og deilt til baka út á almenna raforkukerfið eftir þörfum.

Tenging IMx KURO við raforkukerfin er verkefni sem Nissan hefur þróað í samstarfi við evrópsk orkufyrirtæki og er m.a. ætla að auka raforkuframboð og um leið að mynda fjárhagslegan ábata eigenda rafbíla af fjárfestingunni.