Nýr Bronco – Trump að þakka?

Hinn nýi Bronco er væntanlegur 2020.
Hinn nýi Bronco er væntanlegur 2020.

Nýr Bronco jeppi er á leiðinni frá Ford, mörgum gömlum aðdáendum þessa forfræga jeppa til gleði. Ýmsir þeirra spyrja sig reyndar hvort megi þakka það Donald Trump forsetaframbjóðanda eða ekki. En tilkynningin um nýjan Bronco er komin frá Ford ásamt yfiorlýsingu um að hann verði framleiddur Michigan eins og gömlu Bronkóarnir.

En hversvegna Donald Trump? Jú vegna þess að hann hefur mjög tönnlast á því í kosningabaráttunni að Ford hafi flutt bílaframleiðsluna og þar með störf í stórum stíl frá Bandaríkjunum til Mexíkó. Ford hefur svarað þessum árásum Trumps og bent á miklar fjárfestingar sínar og fjölgun starfa í Bandaríkjunum en átt erfitt með að afneita ásökunum Trumps sem algjörri lygi og dellu eftir að hafa flutt framleiðslu á Ford Focus frá Michigan til Mexíkó.

En sá flutningur var að sögn forstjóra og talsmanna Ford gerður til að rýma til fyrir framlleiðslu á fjórum nýjum gerðum jeppa og jepplinga. Nú er ljóst að ein þessara fjögurra gerða er einmitt Bronco sem verður framleiddur í Michigan bílaverksmiðju Fords þar sem Ford Focus og Ford C-Max bílarnir hafa verið framleiddir til þessa. Framleiðslan á þeim flyst nú til Mexíkó. Talsmenn Ford segja að jeppaframleiðslan í Michigan krefjist bæði nýrra fjárfestinga og mun meiri mannafla en Focus/C-Max framleiðslan krafðist áður. Störfum í bílaframleiðslunni í heimalandinu fækki því ekki heldur þvert á móti fjölgi.