Nýr Citroen lúxusbíll senn væntanlegur

Á bílasýningunni í París undir lok septembermánaðar ætlar Citroen að sýna frumgerð nýs lúxusbíls. Bíll þessi nefnist Cxperience og er svona forsmekkur þess sem leysa skal lúxusbílinn C 5 af hólmi þegar þar að kemur.

Citroen hefur birt stutta lýsingu og myndir af frumgerð þessa bíls sem verður sýnd í París. Þær sýna sérstæðan og rúmgóðan lúxusbíl sem um sumt minnir á ID/DS bílinn sem fyrst kom fram um miðjan sjötta áratug sl. aldar og var gerólíkur öðrum bílum þess tíma að flestu eða öllu leyti. Hvort Cxperience verði slíkur tímamótavagn sem ID/DS bíllinn var á svo eftir að koma í ljós. Hann verður ekki með hinni einstöku gas-vökvafjöðrun sem var í DS bílnum og arftaka hans CX á árunum 1974-1991, heldur með nýju hátæknilegu fjöðrunarkerfi sem sagt er skila svipuðum eiginleikum og gamla gas-vökvakerfið gerði en vera ódýrara og einfaldara í framleiðslu og viðhaldi. 

Cxperience hugmyndarbíllinn er 4,85 metra langur. Lengd milli öxla er þrír metrar sem er svipað og í Mercedes S lúxusbílunum. Allur frágangur bílsins miðast við það að skapa sem mest þægindi og gera alla umgengni við bílinn sem einfaldastan og hljóðlátastan í akstri og að hann sé áreiðanlegur, léttur í viðhaldi og sparneytinn.
Hugmyndarbíllinn er – ekki óvænt – tengiltvinnbíll. Bensínvél (ca. 200 hö) er í vélarrýminu fremst í bílnum en við afturhjólin er ca 100 ha. rafmótor sem knýr þau. Drægi bílsins á rafmagni einu saman er sagt 60 km. Orkurýmd rafhlaðanna er 13 kílóWattstundir.

Hér má sjá fleiri myndir af Citroen Cxperience.