Nýr Fiat Tipo

Þar sem enginn reglulegur innflytjandi og þjónustuaðili fyrirfinnst fyrir Fiatbíla á Íslandi er það ef til vill ofrausn að vera yfirleitt að fjalla um þá. En Fiatbílar hafa sannarlega átt sín tímabil í íslenskri bilasögu, bæði blómatíma og tíma niðurlægingar eins og nú þegar tegundin er munaðarlaus á Íslandi. Í Evrópu hafa Fiatbílar um árabil átt góðu gengi að fagna sem hófst með hinum gullfallega og ágæta Fiat 500 sem hefur verið einn vinsælasti smábíll í Evrópu talsvert lengi.

Bílar með nafninu Fiat Tipo voru þekktir hér undir lok síðustu aldar.  Tipo nafnið hvarf af bílamarkaði Evrópu árið 1995 þegar framleiðandinn lagði nafnið niður. En nú er það að endurfæðast á nýjum bíl sem kemur á Evrópumarkað á nýju ári. Þetta er millistærðarfólksbíll - stallbakur, 4,53 m að lengd, 1,79 á breidd og 1,5 m á hæð með 520 lítra farangursrými. Innflytjandi Fiat í Svíþjóð ætlar að bjóða upp á tvær útgáfur hvað varðar búnað. Sú með minni búnaðinum nefnist Pop og kostar þar um 2,5 millj. ísl. kr. en sú betur búna kallast Lounge og mun kostarúmar 2,7 millj.  Miðað við íslensk aðflutningsgjöld má gera ráð fyrir því að ódýrari gerðin myndi kosta hér um 3,2 milljónir og sú dýrari 3,4 milljónir.

Meginvélin sem í boði verður er 1,6 l, 110 ha. bensínvél sem sögð er eyða 6,3 lítrum í blönduðum akstri.