Nýr Ford heimsbíll

Ford setur nýjan smábíl á markað á næsta ári. Nýi bíllinn fær hið gamalkunna smábílanafn Ka og verður gjaldgengur á  hvaða markaðssvæði heims sem er. Það þýðir að tækni- og öryggisþættir bílsins uppfylla allar kröfur sem sem geta verið mismunandi frá einu svæði til annars. Bíllinn verður því svokallaður heimsbíll.

Hinn nýi Ford Ka verður til að byrja með framleiddur í Brasilíu og þar var frumgerð hans kynnt fréttafólki í gær að viðstöddum mörgum æðstu stjórnendum Ford, þar á meðal stjórnarformanninum Bill Ford, afkomanda gamla Henry  Ford í beinan karllegg. Bíllinn kemur fyrst á Brasilíumarkað upp úr áramótunum en Brasilía er fjórði stærsti bílamarkaður heims. Ætlunin er síðan að útbreiða nýja bílinn til annarra S. Ameríkuríkja, Kína og annarra Asíuríkja, Rússlands, Bandaríkjanna og Evrópu.

Nýi Ka bíllinn er fimm manna og fjögurra dyra hlaðbakur og jafnframt minnsti og ódýrasti sem Ford hefur uppfært þannig að hann gangi hindranalaust inn á hvaða markaðssvæði heims án sértækra breytinga. Stjórnendur Ford sjá fyrir sér mikinn vöxt (35%) í sölu lítilla og ódýrra bíla í heiminum á næstu árum, sérstaklega á þeim mörkuðum sem nú eru í hvað örustum vexti. En samkeppnin verði hörð við aðra framleiðendur eins og t.d. Hyundai, Kia, GM og Suzuki/Maruti í Indlandi.