Nýr forstjóri General Motors

Ráðning verkfræðingsins Mary Barra sem forstjóra General Motors er bílasögulegur tímamótaviðburður. Hún er fyrsta konan sem stýrir alþjóðlegu risafyrirtæki í bílaiðnaði - fyrirtæki sem var gjaldþrota en bjargað frá glötun af bandaríska ríkinu. GM var lengi stærsta bílaframleiðslufyrirtæki veraldar en er nú í öðru sæti á eftir Toyota.

Mary Barra tekur við stjórninni 15. janúar nk. þegar GM virðist loks komið á beinu brautina. Reksturinn skilar hagnaði, nýjustu gerðirnar seljast vel um allan heim og nú loks hefur verið mörkuð ný stefna í Evrópu. Hún felst í því að efla Opel/Vauxhall en draga Kóreu-Chevrolet bílana út af Evrópumarkaðinum og þar með að hætta samkeppni GM við sjálfan sig. Það er stefna sem Automotive News telur að muni verða GM til framdráttar.

Mary Barra er 51 árs. Hún tekur við af Dan Akerson (sjá mynd) sem tók við stjórninni fyrir um þremur árum þegar ástandið var mjög slæmt og framtíð GM vægt sagt tvísýn. Akerson gekk í það með oddi og egg að einfalda risavaxið og hægvirkt skriffinskubákn bílarisans, höggva frá fjöldamörg gömul bílamerki GM og ýmist slátra eða endurnýja gamlar og mis úreltar gerðir bíla, loka óarðbærum verksmiðjum og stórherða gæðastjórnun og gæðakröfum framleiðslunnar. Allt þykir þetta hafa tekist vel hjá Akerson. Það kemur í hlut Barra að ljúka ýmsu sem ólokið er í þessum efnum en síðan að móta nýja skýra framtíðarstefnu og hvernig bregðast skal við í glímunni við helstu samkeppnisaðilana eins og Toyota, Volkswagen og Ford o.fl.

Mary Barra hefur unnið hjá GM mest alla starfsævi sína. Hún hóf ferilinn hjá GM aðeins 18 ára háskólanemi í hlutastarfi hjá Pontiac við að sinna gæðaeftirliti með vélarhlífum og brettum fyrir Pontiac Grand Prix. Að loknu námi í vélaverkfræði hefur hún síðan starfað í ýmsum deildum innan GM í Bandaríkjunum.