Nýr Jeep Grand Cherokee

Chrysler/Fiat samsteypan er komin á rífandi siglingu og farin að skila hagnaði. Nýi Grand Cherokee jeppinn sem nýlega kom á bílasölurnar í Bandaríkjunum selst sem heitar lummur. Þetta er að flestu leyti nýr bíll og fellur kaupendum svo vel í geð að salan er 30 prósentum meiri en Chryslermenn höfðu reiknað með. Til að geta uppfyllt eftirspurn eftir nýja jeppanum þurfti því að stofna í snatri nýja vakt í Jefferson-verksmiðjunni og nýráða 1.100 bílasmiði til viðbótar við þá 1.400 sem þar störfuðu fyrir.

 Fyrstu Jeep Grand Cherokee bílarnir komu á bandarískar bílasölur í byrjun júní og viðtökurnar hafa verið miklu betri en Chrysler-menn höfðu þorað að vona. Grand Cherokee var eins og Ford Explorer sem sagt er frá í fréttinni hér á undan þessari, talsvert vinsæll í heimalandinu Bandaríkjunum fyrir áratug. Þá var árssalan á heimamarkaðinum um 300 þúsund bílar en á síðasta ári var hún einungis um 60 þúsund bílar.

Ef marka má viðtökurnar við nýju gerðinni og við hinni nýju gerð Ford Explorer gæti virst sem vinsældir jeppanna séu aftur að stíga í Bandaríkjunum.