Nýr Kia Sorento

Nýr og endurhannaður Kia Sorento jeppi er kominn á markað og hefst sala á honum hjá Öskju hf., umboðsaðila Kia á Íslandi, í maí. Hinn nýi Sorento er verulega breyttur frá eldri gerðinni, bæði í útliti og innviðum. Markmiðið hjá Kia með breytingunum var ekki síst að höfða til fleiri bílkaupenda en áður með bættum aksturseiginleikum, auknu afl og minni eldsneytiseyðslu.  Hann er ekki lengur byggður á þann gamaldags máta að yfirbygging sé skrúfuð ofan á lausa stigagrind heldur er burðarvirki og yfirbygging ein sambyggð heild. Nýja gerðin er þannig um 215 kílóum léttari en áður, miklu stinnari sem þýðir öruggari aksturseiginleika, loftmótstaða er minni og nýjar sparneytnar vélargerðir verða nú í boði. Nýr Sorento er fimm stjörnu bíll samvæmt árekstursprófi EuroNCAP.

Kia Sorento verður í fyllingu tímans fáanlegur með fimm mismunandi vélum og ýmist fimm eða sjö manna. Í samræmi við tíðarandann og kröfur kaupenda hefur sumum vélunum verið breytt og slagrými þeirra minnkað. Þannig minnkar V6 bensínvélin úr 3,8 í 3,2 lítra og í stað 2,5 lítra dísilvélarinnar kemur ný 2,2 lítra vél með forþjöppu sem setur ný viðmið í eldsneytissparnaði þegar mið er tekið af afkastagetunni. Með beinskiptingu eyðir bíllinn einungis 6,6 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri og 7,4 lítrum sjálfskiptur.

Þrjár vélar verða í boði í Evrópu frá upphafi, 2,4 lítra bensínvél, 2,2 lítra dísilvélin og 2,0 lítra dísilvél. Báðir kostir eru boðnir með beinskiptum gírkassa eða sex þrepa sjálfskiptingu. Afkastageta þessara véla er frá 174 til 197 hestöfl og koltvísýringslosunin er frá 171 gr/km. Dráttargeta 2,4 lítra gerðarinnar er 2.000 kg en 2.500 kg í sjálfskipta dísilbílnum.

Sem fyrr segir ætlar Askja að hefja sölu á nýjum Sorento í maímánuði. Grunnverð bílsins verður frá um 7 milljónum króna.