Nýr lúxus Land Cruiser

http://www.fib.is/myndir/LandCruiserV8.jpg
Toyota Land Cruiser V8 árg. 2008.

Toyota Land Cruiser er einn mest metni jeppinn, ekki bara á Íslandi, heldur um allan heim. Nú er framleiðandinn búinn að afhjúpa sjöundu kynslóðina sem mun leysa þann stóra - Land Cruiser 100 - af hólmi og er sá nýi bæði lengri og breiðari en sá eldri. Hinn nýi Toyota Land Cruiser hefur gerðarheitið V8. Vélarnar, hvort heldur þær ganga fyrir bensíni eða dísilolíu eru nefnilega V8 og bíllinn er svo sem heldur ekki nein smá-púta heldur hreinræktaður lúxusbíll með sætum fyrir sjö manns. The image “http://www.fib.is/myndir/Land.cruisermaelar.2008.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.

Þótt í útliti sé hinn nýi Land Cruiser V8 áþekkur þeim gamla er um nýjan bíl að ræða yst sem innst. V8 dísilvélin 4,5 lítrar að rúmtaki og 282 hö. Vinnsla hennar eða tog er hvorki meira né minna en 650 Nm frá 1600 snúningum á mínútu og upp úr. Sex hraða sjálfskipting er staðalbúnaður með dísilvélinni. Bensínvélin er líka ný V8 vél. Hún er 5,7 l, 381 ha. Með þessari vél er fimm hraða sjálfskipting.

Toyota Land Cruiser V8 er á loftfjöðrum og með skriðstilli sem heldur sjáflvirkt hæfilegri fjarlægð frá bílnum á undan. Myndavél sýnir umhverfið fyrir aftan bílinn og til hliðanna þegar bakkað. Í bílnum eru svo alls 14 loftpúðar, læsivarðir hemlar að sjálfsögðu og ESC stöðugleikastýring.

Fjórhjóladrifið er sítengt og búið allskyns læsingum sem stjórnað er af tölvu í samræmi við akstursaðstæður. Í bensínbílnum er svonefnt Crawl Control eða skriðstýring. Í henni felst að tölvan tekur við stjórn vélarinnar, hemlanna og drifbúnaðarins í torfæruakstri og sér til þess að bíllinn mylur sig í gegn um erfiðara færi en flestir aðrir jeppar geta ráðið við að því segir á bandarískri vefsíðu þar sem bílnum er lýst. Crawl Control hamurinn sér til þess að hjólin spóla aldrei eitt og eitt á uppleið og kerfið hemlar hjólunum að þörfum þegar farið er niðurávið. Í torfærum þarf ökumaður því ekkert að gera annað en stýra.

Hinn nýi Land Cruiser V8 verður líklegast frumsýndur í Evrópu á bílasýningu í Sánkti Pétursborg í Rússlandi (sem áður hét Leningrad) í lok október og salan hefst svo í desembermánuði í Evrópu. Toyota á Íslandi mun þegar byrjuð að taka niður pantanir á nýjum Land Cruiser V8 bílum. Ekki er ljóst hvert verðið verður hér á landi en í Bandaríkjunum byrjar það í um 64 þúsund dollurum. Það er um átta þúsund dollurum hærra en á 2007 árgerðinni af Land Cruiser 100 þar.