Nýr Mercedes A-klass slær í gegn

Svo virðist sem hin nýja kynslóð minnsta Benzans – Mercedes A-Klass – sé búin að slá í gegn þótt sala sé formlega séð vart hafin (byrjar víðast hvar um næstu mánaðamót). Þegar liggja fyrir pantanir á 40 þúsund A-bílum og Benz-stjórarnir í Stuttgart hafa ákveðið að herða verulega á framleiðslunni.

Nýi A-Benzinn er framleiddur í verksmiðju Mercedes Benz í Rastatt í Þýskalandi og í nýrri verksmiðju í Kecskemét  í Ungverjalandi. Ennfremur hefur verið samið við Valmet í Finnlandi um framleiðslu á rúmlega 100 þúsund A-Benzum á árabilinu 2013-2016.

Meðal staðalbúnaðar í nýja A-Benzanum verða álfelgur, loftkæling (AC-miðstöðvarkerfi), hljóðkerfi með 6 hátölurum, USB innstungum og Bluetooth.  Af staðalbúnaði á öryggissviðinu má nefna m.a. þreytu- og árekstrarviðvörunarkerfi og hnjá-loftpúða fyrir ökumann, auk ESC skrikvarnar.

Hinn nýi A-Benz er gerbreyttur frá eldri kynslóðinni og rennilegur að sjá. Stórt úrval véla og drifbúnaðar og innrétting og annars búnaðar, er í boði og vélarnar allar öflugar og mjög sparneytnar. Flestar bensínvélarnar uppfylla kröfur E6 mengunarstaðalsins og eru frá 1,6 l að rúmtaki og frá 122 hö, upp í 2ja lítra, 211 hestafla. Dísilvélarnar verða frá 109 til 136 hö.