Nýr Nissan X-Trail

Nissan sýnir í Frankfurt nýja kynslóð X-Trail jepplingsins sem er verulega breytt. Núverandi X-Trail er hannaður með það fyrir augum að vera sem notadrýgstur. Það er meiri svona lúxuskeimur af hönnun þess nýja og það er undirstrikað með betri hljóm-, síma- og tengigræjum . Þó er því lofað að hann sé ekkert síðri en sá gamli á verri vegum, jafnvel ívið betri.

Tæknilega er nýi bíllinn afkvæmi Nissan í Japan og Renault í Frakklandi. Undirvagninn eða grunnplatan kallast CMF. Hún er úr stöðluðum einingum sem setja má saman með ýmsu móti, eftir því hverskonar bíl á að byggja ofan á hana. CMF stendur fyrir Common Module Family.

Nissan X-Trail tilheyrir sama jepplingaflokki og Toyota RAV4, Subaru Forester og Volvo XC60. Hann er semsé stærri en Nissan Qashqai. Bærilega fer um fimm manns í bílnum og dyr í aftursætið opnast vel (80 gráður) til að gera inn- og útstig léttara sem og það að koma fyrir barnastólum. Fáanleg verða sem aukabúnaður tvö aukasæti fyrir aftan aftursætisbekkinn.

Nýtt upplýsinga- fjarskipta-, leiðsögu- og hljóðkerfi er „frumsýnt“ í þessum nýja X-Trail. Það kallast Connect. Það er með tengingum fyrir síma og hljóð- og myndgjafa eins og i-Pad. Kerfinu er stjórnað á sjö tommu snertiskjá. Fjórhjóladrifinu er hins vegar stjórnað með takka á miðjustokknum. Fjórhjóladrifskerfið nefnist All Mode 4X4i. Hægt er að velja milli þess að hafa bílinn í framhjóladrifi, sívirku aldrifi eða læstu fjórhjóladrifi.

Af öðrum tæknifídusum sem fást í þennan nýja X-Trail má svo nefna Active Ride Control sem stillir stífleika fjöðrunarkerfisins eftir því hvernig vegurinn er, Active Engine Brake sem gefur meiri vélarhemlun og loks Active Trace Control sem hemlar einu og einu hjóli í beygjum til að auka stöðugleika og veggrip.

Þessi nýja kynslóð Nissan X-trail er væntanleg á markað í Evrópu næsta vor.