Nýr Porsche 911 Carrera 4

Ný kynslóð sportbílsins Porsche 911 Carrera verður frumsýnd í framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í París sem senn hefst. Tvær undirgerðir bílsins verða með fjórhjóladrifi. Gerðarheiti þeirra eru Carrera 4 og Carrera 4S.

Fjórhjóladrifkerfið er sídrif og nefnist PTM (Porsche Traction Management). Tölva deilir vélaraflinu milli fram- og afturhjóla þannig að afturhjóladrifið er megindrifið og á því er meginhluti aflsins, en tölvan skammtar svo afl til framhjólanna eftir þörfum. Kerfinu er þannig ætlað að skapa hámarks veggrip við allar akstursaðstæður, færi, veður og vegyfirborð.

Allar undirgerðir hinnar nýju kynslóðar Porsche 911 verða fáanlegar með föstum toppi eða sem opnir blæjubílar, hvort heldur þeir eru fjórhjóladrifnir eða með afturhjóladrifinu einu. En sameiginlegt er með öllum undirgerðunum að vera miklu léttbyggðari en eldri kynslóðin (allt að 65 kg) . Sömuleiðis eru vélar, gírkassar og fjöðrunarbúnaður nýtt og bílarnir mun sparneytnari á eldsneytið en áður (allt að 16%) þrátt fyrir að vera bæði aflmeiri, viðbragðsfljótari og hraðskreiðari en nokkrun sinni fyrr.

Í öllum gerðum hins nýja bíls er sjö gíra gírkassi staðalbúnaður en tvöföld kúpling (PDK) sem skiptir sjálfvirkt um gír á sama hátt og DSG kúpling/gírkassi í Volkswagen fæst sem viðbótarbúnaður. 911 Carrera 4 Coupé með 350 ha. vél  er 4,5 sek. úr kyrrstöðu í 100 km hraða og kemst á 285 km á klst. Bensíneyðslan bílsins með PDK-gírkassanum er 8,6 l á hundraðið og CO2 útblásturinn er 203 g/km.

Bæði afturhjóla- og fjórhjóladrifnu gerðirnar af Carrera S eru með 3,8 l, 400 ha. vél. Lokaða gerðinaf 4S (ekki blæjubíll) er 4,1 sekúndu í hundraðið og kemst á 299 km hraða. Blæjubíllinn er 4,3 sek. í hundraðið og kemst á 296 km hraða.

Nýju Carrera bílarnir fást með nýrri gerð skriðstillis sem nefnist ACC (Adaptiv Cruise Control). Búnaður þessi, sem er aukabúnaður, mælir hraðann og fjarlægðina til næsta bíls á undan og varar ökumann við ef árekstur er yfirvofandi og/eða grípur inn í og hemlar ef svo ber undir. Þá er fjöðrunarkerfið fáanlegt með mismunandi stífleika.