Nýr smábíll frá Mitsubishi

Bíllinn sem teikningin er af, er nýr smábíll frá Mitsubishi sem ætlunin er að framleiða í Tælandi. Þetta verður heimsbíll sem þýðir að hann mun ganga á mörkuðum bæði austan- og vestanhafs án breytinga. Hann á að verða einfaldur að gerð en vel búinn öryggis- og þægindabúnaði.  Sökum einfaldleikans og mikillar fjöldaframleiðslu þar sem vinnuafl er ódýrt, á bíllinn að verða ódýr. Líklegt er talið að hann muni leysa núverandi MMC Colt af hólmi þótt hann sé aðeins minni en Coltinn er.

Bíllinn er vissulega enn á hönnunarstigi og er vinnuheiti hans Global Small, eða heims-smábíll. Framleiðsla á honum hefst alveg nýrri verksmiðju í Tælandi 2012 og hann verður markaðssettur í Asíu, Evrópu og hugsanlega Bandaríkjunum einnig.

Bíllinn Global Small er fimm dyra hlaðbakur og er byggður á alveg nýrri botnplötu. Tvær bensínvélar verða í boði í upphafi, báðar mjög sparneytnar. Sú minni verður þriggja strokka 1,0 l að rúmtaki en sú stærri fjögurra strokka og 1,2 lítrar að rúmtaki.  Samkvæmt framleiðsluáætlunum verða 150.000 bílar byggðir árið 2012 en framleiðslan verður aukin í 200 þúsund bíla árlega eftir fyrsta árið.