Nýr "sparibaukur" frá Mitsubishi

Mitsubishi er að hefja kynningu á hinum Norðurlöndunum á nýjum smábíl sem sagður er vera á verði sem hér á Íslandi yrði undir tveggja milljóna markinu. Engar fregnir eru um hvort þessi bíll, sem bæði er sparneytinn en þó þokkalega öflugur, sé væntanlegur til Íslands á næstunni. En samkvæmt traustum heimildum hefur Mitsubishi í Evrópu áhuga á því að efla veg bíla sinna á Íslandi en Mitsubishi fólksbílar voru meðal söluhæstu tegunda undir lok síðustu aldar.

Þessi nýi Space Star er smábíll, 371 sm langur með 235 lítra farangursrými. Hann er fimm dyra og fjögurra manna. Rýmið framí er ágætt og eins og búast má við í smábíl afturí.

Vélin er nýhönnun. Hún er þriggja strokka og fæst í tveimur stærðum; 999 71 ha. og 1193 rúmsm, 80 ha. CO2 útblástur vélanna er 92 og 96 grömm á kílómetrann, en sé  bíllinn með stiglausri CVT sjálfskiptingu í sta fimm gíra handskiptingar er CO2 útblásturinn um einu grammi lægri á hvern ekinn kílómetra. Vinnsla þeirrar minni er 88 Newtonmetrar en þeirrar stærri 106. Þyngd bílsins er einungis 900 kíló þannig að vart ætti að vera ástæða til að óttast aflleysi. Bensíneyðslan er sögð 4-4,5 lítrar á hundraðið.