Nýr sportbíll

http://www.fib.is/myndir/DaewooG2X.jpg
GM-Daewoo G2X.


Þessa dagana  stendur yfir stór bílasýning í Seoul, höfuðborg S. Kóreu sem auðvitað er vel viðeigandi í þessu mikla bílalandi sem S: Kórea er orðin.

Kóresku bílaframleiðendurnir tjalda þar eðlilega öllu til og meðal merkra gripa þar er alveg nýr tveggja sæta sportbíll frá GM-Daewoo.  Þessi sportbíll hefur gerðarheitið G2X og er sérstaklega ætlaður fyrir Asíumarkað og á að keppa þar við mest selda sportbíl bílasögunnar; Mazda MX-5. Fjöldaframleiðsla á bílnum á að hefjast í sumar.

G2X er byggður á sömu grunnplötu og hinn nýi og íðilfagri Opel GT og Pontiac Solstice. G2X er fjögurra metra langur með tveggja lítra 260 ha. bensínvél með túrbínu. Drifið er á afturhjólunum og gírkassinn er fimm gíra handskipting. Viðbragðið er 5,5 sek. í hundraðið og hámarkshraði er 227 km á klst. ESC stöðugleikakerfi og spólvörn er staðalbúnaður.