Nýr Suzuki jeppi í Frankfurt

Suzuki er að byrja á því að endurnýja jeppalínu sína og sýnir nú nýjan jeppa á sýningunni í Frankfurt sem hefur gerðarheitið iV-4. Bíllinn er enn á hugmyndarstigi og sýningarbíllinn í Frankfurt er því frumgerð sem án efa á eftir að taka breytingum áður en fjöldaframleiðsla hefst. Suzuki jeppar hafa lengi verið vinsælir hér á landi og nýi jeppinn er álitlegur og vel má ímynda sér að hann henti vel á Íslandi og falli landanum vel í geð ef einhverntíman kemur að því að hér hefjist eðlileg endurnýjun bílaflotans.

Nýi jeppinn er búinn nýjustu gerð Suzuki fjórhjóladrifs sem kallast Allgrip og er boðað á Evrópumarkað 2015, en er reyndar þegar komið í nýjustu árgerð Suzuki SX4 S-Cross. 
Hugmyndabíllinn iV-4 telst einna helst vera nýtt afsprengi á því ættartré þar sem helstu  laukarnir eru litlu LJ jepparnir upp úr 1970, Vitara frá 1988, Jimny 1998 og Grand Vitara 2005.

Frumgerðin í Frankfurt er  4,215 m að lengd, 1,85 á breidd og 1,67 m á hæð. Þegar framleiðsla hefst verða nokkrar gerðir bensín- og dísilvéla í boði sem sagðar munu verða sparneytnar og mengunarlitlar.