Nýr tengiltvinnbíll

Tengiltvíorkuútgáfa af nýjustu kynslóð Mitsubishi Outlander verður frumsýnd á bílasýningunni í París í september. Tvíorkukerfið er sagt afar fullkomið og eyðslan í blönduðum akstri sé líkleg til að fara niður fyrir tvo lítra á hundraðið og CO2 losun verði undir 50 grömmum á kílómetrann.

Mitsubishi Outlander bíllinn sem um ræðir kallast fullu nafni Plug-in Hybrid EV (PHEV). Hann verður fyrsti bíllinn af mörgum með nýjan vél- og drifbúnað sem Mitsubishi segir afar byltingarkenndan. Aðrar Mitsubishi-gerðir með þessum tvíorkubúnaði munu svo birtast hver af öðrum næstu 12 mánuðina samkvæmt frétt frá Mitsubishi.

Búnaðurinn er þannig samsettur í grófum dráttum, að tveir rafmótorar eru í bílnum og knýr annar framhjól en hinn afturhjól. Bensínvél er svo á hefðbundnum stað, frammi í húddi. Ökumaður getur valið milli þriggja aksturskerfa: Pure er akstur á rafmagni einu, Series er akstur á rafmagni einu en bensínvélin vinnur einvörðungu sem rafstöð, eða ljósavél (eins og í Chevrolet Volt). Þriðja kerfið heitir svo Parallel en þá hjálpar bensínvélin rafmótorunum og drífur framhjólin ásamt rafmótornum fyrir framhjólin.