Nýr Volvo smábíll

Stefan Jacoby forstjóri Volvo segir í samtali við Automotive News að Volvo ráðgeri nú nýjan bíl – smábíl sem keppa skal við Mini Cooper og Audi A1. Þetta kemur fram í viðtali við Jacoby um nýja kynslóð þess bíls sem nú er minnsti Volvóinn – Volvo V40 en af honum er meðfylgjandi mynd.

Verði þessum fyrirætlunum hrint í framkvæmd þýðir það að koma  þarf á samstarfi við annan eða aðra bílaframleiðendur um hönnun bílsins til þess að skipta upp þróunar-, hönnunar-, og framleiðslukostnaðinum. Sömuleiðis þyrfti að þróa nýjar vélar, hugsanlega þriggja eða jafnvel tveggja strokka. En að finna samstarfsaðila ætti varla að vera neitt stórkostlegt vandamál, því að Volvo er, eins og margir muna efalaust, alfarið í eigu Geely í Kína sem einmitt er talsvert öflugt í smábílum fyrir Asíumarkaði. Í viðtalinu við Automotive News Europe segir Stefan Jacoby að nýi smábíllinn, verði hann að veruleika, verði sko ekki nein drusla, heldur byggður samkvæmt ítrustu gæðakröfum Volvo. Það sé nefnilega svo komið í bílaiðnaðinum að hugtakið gæðabíll (Premium car) er ekki lengur bundið við stærri og stærstu fólksbílana eða fjölda strokka í vélum þeirra. Gæðabílar geta allt eins verið smábílar  og af minni meðalstærð nú á tímum.

Þannig er einmitt Audi A1. Hvað stærð hans varðar er hann auðvitað smábíll en telst jafnframt vera „Premium“ bíll. Audi A1 hefur skipt VW samsteypuna miklu frá því hann kom fyrst fram og selst mjög vel og salan vaxið hratt. Það er því ekkert undur að Volvo vilji sækja inn á þennan markað.