Nýskráðir bílar 2010 í Danmörku með minnsta CO2-útblásturinn í Evrópu

Ofurhá skráningargjöld og skattar á nýja bíla þvinga danska bílakaupendur til að halla sér að litlum og eyðslugrönnum bílum þegar að því kemur að endurnýja. En skráningargjöldin ofurháu valda líka því að Danir halda lengi í bíla sína og meðalaldur danska bílaflotans er því í hærra lagi. Þetta kemur fram í Motor, félagsblaði FDM, systurfélags FÍB, í Danmörku.

Fjármálakreppan 2008 fór fremur mildum höndum um Dani og sl. tvö ár hefur sala nýrra bíla verið með fjörugasta móti. Stærstur hluti nýju bílanna eru litlir og mjög sparneytnir bílar, oftast dísilbílar, með lítinn CO2 útblástur og samanlagt er því CO2 útblástur nýrra bíla í Danmörku árið 2010 hlutfallslega minnstur allra Evrópusambandslanda. FDM, systurfélag FÍB, telur að til þess að Danir haldi þessari stöðu sé skynsamlegt að lækka skráningargjöldin af nýjum bílum umtalsvert til að endurnýjun bílaflotans gangi hraðar fyrir sig og að gömlum, mengandi og eyðslufrekum bílum fækki hraðar en nú sé fyrirsjáanlegt að muni gerast að óbreyttu. Hin ofurháu skráningargjöld útiloki venjulegt fjölskyldufólk frá því að velja sér bíla eftir eigin þörfum. Þau útiloki þannig að meðalstórir og stærri nýir fólksbílar séu valkostur venjulegs fólks þegar að því kemur að endurnýja fjölskyldubílinn.

Samkvæmt samantekt Evrópsku umhverfismálastjórnarinnar eru nýir bílar í Danmörku minnst CO2 mengandi að meðaltali. Samantektin er byggð á upplýsingum frá 27 ES-ríkjum um selda nýja bíla sem samtals voru 13,2 milljónir. Meðal CO2 útblástur nýju bílanna í Danmörku 2010 er 126,6 grömm á hvern ekinn kílómetra. Næst lægsta gildið er í Portúgal; 127,3 grömm á kílómetrann.

Þeir nýju bílar sem skráðir voru í Danmörku árið á undan (2009) reyndist vera 139,1 gramm á kílómetrann að meðaltali þannig að ótrúlega mikið hefur greinilega áunnist. Sáralítil eða engin breyting varð hins vegar á sjálfum bílunum milli áranna 2009 og 2010 hvað varðar stærð og afl. Fyrst og fremst er því lækkunin að þakka framförum sem orðið hafa í bílaiðnaðinum í byggingu véla og drifbúnaðar í bílana. Og Danir virðast því hafa fyrstir náð því markmiði Evrópusambandsins fyrir árið 2015 að meðalútblástur nýrra bíla verði ekki hærri en 130 grömm á kílómetrann.

Eistland og Lettland geta hins vegar ekki státað sig af sama árangri og Danir í þessu tilliti því að þar var meðalútblástur nýju bílanna árið 2010 162 gCO2/km. Þó gengu hlutirnir þar, eins og víðast annarsstaðar, í rétta átt. Mest lækkun milli ára varð í Slóvakíu en hún er þökkuð því að árið 2010 voru nýskráðir þar fleiri dísilfólksbílar en nokkru sinni áður.