Nýtæknin gerir framrúðuskiptin dýrkeypt

Margskonar nýtísku tæknibúnaður og öryggiskerfi í bílum hafa gert framrúðuskipti bæði bæði erfið, flókin og dýr. Eftir framrúðuskipti er mikilvægt er að ganga frá og stilla skynjara og myndavélar í nýju framrúðunni rétt svo allt virki eins og áður.

Í nýjum og nýlegum bílum er búnaður eins og regnskynjari, vegaskiltalesari, radar- eða myndavélaraugu sem lesa kant- og miðlínur á yfirborði vega. Búnaðurinn getur nauðhemlað ef hindrun er framundan og ökumaður bregst ekki við, hann getur stjórnað hraða bílsins og fjarlægð í næsta bíl fyrir framan ef kveikt er á skynvæddum skriðstillinum. Allur þessi búnaður sem fyrir fáum árum þótti sem fjarlægir framtíðardraumar er löngu kominn í bílana og gerir sannarlega sitt gagn. En gamanið kárnar verulega ef framrúðan brotnar og reikningurinn fyrir fyrir rúðuskiptin birtist.

Algengt grunnverð á nýrri framrúðu í bíl er frá um 100 þúsund krónum. En ef um er að ræða að koma aftur fyrir skynjurunum, tengja þá og/eða endurstilla eða endurforrita svo búnaðinn, getur auðveldlega tvöfaldað kostnaðinn. Steinvalan sem skaust undan bílhjóli í rúðuna hjá manni getur því orðið ærið dýr þegar upp er staðið.

Framrúða eru í dag annað og meira en venjuleg glerrúða. Nútíma framrúður eru hljóð- og hitaeinangrandi, þær sía tiltekin ljóstíðnisvið sólarljóssins til þæginda fyrir þá sem í bílnum eru. Inni í glerinu geta svo verið hitavírar og stundum líka loftnetsvírar. Því til viðbótar er margskonar tæknibúnaður inni í glerinu, eins og endurvarp hraðamælis og allskonar annarra upplýsinga. Hluti framrúðunnar sem snýr að ökumanni er þannig eins konar sjónvarpsskjár og þá eins gott að þeir sem skipta um rúðuna ef hún brotnar, kunni til verka og geti endurstillt allan þennan búnað í nýju rúðunni. Það er einmitt þessar endurstillingar og uppfærsla hugbúnaðar sem getur hækkað vinnuliðinn hvað mest.  

Ef skipta þarf um framrúðuna er því mikilvægt að þeir sem það geri viti sínu viti. Sá öryggisbúnaður sem nefndur hefur verið og er í og á framrúðunni er vissulega ágætur og enginn vafi á að hann getur stórminnkað hættu á slysum. En til þess þarf hann að virka rétt. Búnaðurinn er gagnslaus ef hann er óvirkur að meira eða minna leyti og ergilegt að þeir sem skiptu út rúðunni reynist síðan ekki kunna að koma búnaðinum aftur í gang.