Nýtt Íslandsmet í bensínverði

N1 hækkaði verðið á bensínlítra um 4 krónur seinni partinn liðinn mánudag.  Við það fór bensínlítrinn í 246,70 krónur og hefur aldrei verið dýrari.  Olís fylgdi fljótlega í kjölfarið og einnig ÓB með sömu hækkun.  Í gær hækkaði Atlantsolía bensínverðið hjá sér um um 3,40 krónur eða í 245,90 krónur hvern lítra og Orkan hækkaði í 245,80 krónur. Dýrast er bensínið hjá Skeljungi á Shell stöðvunum eða 247,90 krónur lítrinn.

Fyrir klukkan 10 í morgun lækkaði N1 bensínið niður í 245,90 kr/l.  Eftir það lækkaði bensínið einnig hjá Olís, ÓB og Orkunni.  Þegar þetta er ritað hefur verðið ekki breyst hjá Atlantsolíu og Shell. 

Olíufélögin eru heldur að bæta í álagningu með síðustu verðbreytingunum samanborið við meðalálagningu síðustu tveggja ára. 

Bensín hefur hækkað um 18 krónur hver lítri í janúar mánuði.  Ríkið hefur hækkað skatta um 3,5 krónur þannig að í dag renna tæplega 120 krónur í ríkissjóð af hverjum bensínlítra.  Til samanburðar þá runnu 79 krónur af hverjum lítra þegar fyrsta ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við stjórn landsins í febrúar 2009.  Skattar í ríkissjóð á hvern lítra hafa því hækkað um ríflega 55% á þessum þremur árum.  Hvað hafa laun hækkað á sama tíma?

Margir hafa samband við FÍB þessa daga og kvarta mikið yfir háu eldsneytisverði.  Hátt orkuverð bitnar verst á þeim tekjuminni í samfélaginu og fjölskyldum á landsbyggðinni sem þurfa að sækja nauðsynlega þjónustu um langan veg. 

FÍB hefur einnig fengið sterk viðbrögð frá bíleigendum sem sjá ekki mikla samkeppni á milli bensínstöðva.  Nú virðist það nánast hoggið í stein að verðmunurinn á milli stöðva í sjálfsafgreiðslu fer ekki yfir 30 aura á lítra. Þessi verðmunur er undir 0,13%.  Það er til eitthvað sem kallast ,,þæginda" samráð og annað sem kallast hagfræðilegt samráð.  Þetta hljóta samkeppnisyfirvöld að skoða á næstunni.

Hvað ætla stjórnvöld að gera?  55% hækkun á sköttum af bensínlítra er óeðlilega mikil hækkun á aðeins þremur árum. Við stjórnum ekki heimsmarkaðsverði en stjórnvöld ráða upphæð bensínskatta og olíufélögin álagningu.