Nýtt snjókeðjupróf ADAC

Norski dekkjasokkurinn sem FÍB hefur verið með til sölu í vetur hefur bjargað mörgum úr festum í vetrarfærinu sem verið hefur um landið að undanförnu og óvenju lengi í þokkabót. Dekkjasokkurinn, sem er úr þéttofnu gerviefni, gefur furðu gott grip í snjó og jafnvel á ís og er því ágætlega til þess fallinn að bjarga sér í neyðartilvikum. En það er með sokkinn eins og keðjurnar: Hann þolir ekki langan akstur á fullri ferð á auðum vegi.

Í nokkrum ríkjum Norður-Evrópu er það orðin skylda að hafa í bílnum snjókeðjur og skóflu að vetrarlagi. Í sumum þeirra kemur dekkjasokkurinn reyndar í stað snjókeðjanna eins og prófanir viðurkenndra vottunarstofa eins og TUV o.fl. hafa reyndar staðfest. Nú er mikill og góður snjór á mörgum helstu skíðasvæðum Evrópu, bæði í Noregi og í Ölpunum. Þannig er nú meiri snjór á austurrísku skíðasvæðunum en hefur verið marga undangengna vetur. Þá er ekki langt í vetrarfríið sem vinnustaðir og skólar í Evrópu gefa. Þegar það hefst má búast við gríðarlegri umferð á vegum, ekki síst í kring um helstu skíðasvæði álfunnar. Af því tilefni hefur þýska bifreiðaeigendafélagið og systurfélag FÍB; ADAC tekið sig til og gæðaprófað ellefu tegundir snjókeðja. Þær eru af ýmsum gerðum og úr ýmsum efnum og sjást niðurstöðurnar á myndrænu formi hér fyrir neðan.

En niðurstöður snjókeðju- og hjálparbúnaðarprófsins hjá ADAC er þær helstar að það eru góðu gömlu stálkeðjurnar sem standa sig best. Keðjur og búnaður úr gerviefnum sem prófaður var, dugðu hins vegar ekki jafn vel. Prófaðar voru átta gerðir keðja úr stáli og þrjá gerðir úr plastefnum, þeirra á meðal dekkjasokkurinn sem stóð sig best af hjálparbúnaði úr plastefnum. Niðurstaðan er sú að stálið er það efni sem best dugar. Dekkjasokkurinn er hins vegar ódýrari en keðjur, mun léttari og auðveldari að setja á drifhjólin en þær. Hann er því ágæt lausn eins og hann hefur sannað sig hjá þeim fjölda fólks sem þurft hefur að grípa til hans í vetur.

Prófunarfólkið hjá ADAC kannaði ekki aðeins hversu vel búnaðurinn dugar í snjó og ófærð, heldur einnig það hversu mikil fyrirhöfn það er að koma keðjunum á drifhjól bílanna og hvert slitþolið er. Verst dugðu plastkeðjurnar og –búnaðurinn og á botninum reyndist efni á úðabrúsa sem kallast því tígulega nafni Snow-Grip. Það reyndist ekki peninganna virði.  Að öðru leyti talar myndin sínu máli.

http://www.fib.is/myndir/Snjokedjuprof.jpg